Áhersluforliðir

Flest algengustu lýsingarorð málsins hafa tiltölulega víða merkingu – eru notuð til að lýsa margs konar hlutum og fyrirbærum, og nákvæm merking þeirra fer eftir orðinu sem þau standa með hverju sinni. Vissulega er sameiginlegur merkingarþáttur í lýsingarorðinu góður í góður maður, góð bók, góð hugmynd, góður bíll, gott skap, góð líðan, gott veður, gott ráð, góð skemmtun, góð ríkisstjórn, en merkingartilbrigði orðsins eru samt jafnmörg og orðin sem það tengist. Þetta kemur líka fram í notkun áhersluforliða. Þeir eru sjaldnast notaðir með tilteknu lýsingarorði í öllum merkingartilbrigðum þess, heldur er notkun þeirra yfirleitt bundin við ákveðið samhengi.

Orðið eldheitur er t.d. auðskiljanleg líking, 'heitur eins og eldur', en samt er ekki hægt að tala um eldheitt vatn eða eldheitan ofn. Forliðurinn er bundinn við óeiginlega merkingu orðsins heitur, þ.e. 'ákafur' – við getum talað um eldheitan aðdáanda, eldheitan stuðningsmann o.s.frv. En þótt við tölum ekki um eldheitan ofn getum við talað um funheitan ofn – samt merkir funi 'eldur' og því mætti búast við að hægt væri að nota eldheitur og funheitur í sama samhengi. Við getum notað funheitt um lofthita, en aðeins innan dyra – ég held að við myndum aldrei segja að það væri funheitt úti jafnvel þótt við værum stödd í 30 stiga hita. Mörg fleiri hliðstæð dæmi mætti tína til.

Lýsingarorðið fullur er áhugavert í þessu sambandi. Það getur tekið með sér mikinn fjölda forliða, en flestir þeirra eiga við eina merkingu orðsins, þ.e. 'drukkinn'. Meðal samsetninga sem hafa þá merkingu eru augafullur, blekfullur, blindfullur, draugfullur, drullufullur, haugfullur, hrútfullur, kengfullur, kolfullur, kóffullur, moldfullur, perufullur, pissfullur, pöddufullur, sjóðfullur, svartfullur, svínfullur, þéttfullur, öskufullur og örugglega mörg fleiri. Stundum er hægt að tengja tvo eða jafnvel þrjá forliði saman og vera blindaugafullur, blindöskufullur, blindöskuaugafullur, blindaugaöskufullur o.s.frv. Þó er varla hægt að segja *draugkengfullur eða *kófpissfullur eða *bleksjóðfullur svo að dæmi séu tekin.

Þegar fullur er notað í annarri merkingu verður að nota aðra áhersluforliði – barmafullur, kjaftfullur, kúffullur, sneisafullur o.s.frv. Sumar þessara samsetninga með -fullur hafa bókstaflega merkingu, t.d. barmafullur, aðrar eru líkingar af ýmsu tagi, misjafnlega augljósar, t.d. kjaftfullur, og enn aðrar tengja venjulegir málnotendur tæpast við upprunann. Undir það fellur sneisafullur, en samkvæmt Íslenskri orðsifjabók var sneis 'teinn eða spýta notuð til að loka sláturkepp' – þegar keppurinn er sneisafullur er mál til komið að loka honum með sneisinni. Svo eru einhver orðanna tökuorð eða gerð að erlendri fyrirmynd – pissfullur er t.d. væntanlega komið úr dönsku, pissefuld.

Allt sýnir þetta að notkun áhersluforliða er mjög háð málvenjum og ekki fyrirsegjanleg út frá merkingunni einni saman – við þurfum að læra hvaða forliði er hægt að nota með hvaða lýsingarorðum við hvaða aðstæður. Sú kunnátta kemur ekki öll í einu, heldur byggist upp smátt og smátt, og börn nota t.d. oft forliði á annan hátt en fullorðið fólk – þau eru búin að læra forliðina og átta sig á hlutverki þeirra, en ekki á öllum takmörkunum sem gilda um notkun þeirra. Og notkun forliðanna er ekki heldur klöppuð í stein – stundum notar fólk nýja forliði til áherslu, eða þekkta forliði í öðru samhengi en venja er. Ástæðulaust er að hafna slíkri tilbreytingu fortakslaust – í henni getur oft falist skemmtileg nýsköpun.