Lífvænleiki íslenskunnar

Á degi íslenskrar tungu skulum við gleðjast yfir því að íslenskan stendur á margan hátt vel þrátt fyrir að ýmsar ytri aðstæður séu henni óhagstæðar um þessar mundir. Auk sterkrar og samfelldrar bókmenntahefðar og lifandi áhuga almennings byggist styrkur íslenskunnar ekki síst á því að hún er aðaltungumálið eða eina tungumálið á öllum helstu sviðum þjóðlífsins: í stjórnkerfinu, í menntakerfinu, í heilbrigðiskerfinu, í verslun og viðskiptum, í fjölmiðlum, í menningarlífinu, í netsamskiptum, í samskiptum augliti til auglitis, og inni á heimilinu.

Við hugsum ekki alltaf út í hvað það er merkilegt að 360 þúsund manna samfélag skuli eiga sér sérstakt tungumál sem gegnir burðarhlutverki á öllum sviðum í tæknivæddu nútímaþjóðfélagi. Vissulega er til mikill fjöldi tungumála sem færra fólk talar, en langflest þeirra eru tungumál þjóða og þjóðflokka þar sem aðeins fá áðurnefndra sviða koma við sögu. Það er líka til fjöldi tungumála sem milljónir eða milljónatugir fólks eiga að móðurmáli, en eru aukatungumál eða minnihlutamál í viðkomandi samfélagi og aðeins notuð á sumum sviðum og eiga því undir högg að sækja.

Samkvæmt mælikvarða UNESCO um lífvænleik tungumála er íslenska í fimmta og efsta styrkleikaflokki. Þessi kvarði byggist á sex mælistikum sem sýndar eru í töflunni hér fyrir neðan, ásamt þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að komast í efsta þrep hverrar stigu. Hingað til hefur verið talið ótvírætt að íslenska sé í efsta þrepi á þeim öllum og sé þar með örugg. En ef til vill er ekki lengur alveg ljóst að íslenska nái efsta þrepi samkvæmt öllum viðmiðum, og hugsanlega kalla tæknibreytingar síðustu ára líka á einhver ný viðmið.

Mælistika Viðmið til að komast í efsta þrep mælistikunnar
Flutningur málsins milli kynslóða Málið er notað af öllum aldurshópum, frá börnum og upp úr
Fjöldi málhafa Útilokað að nefna tölu, en málsamfélög eru því viðkvæmari sem þau eru minni
Hlutfall málhafa af heildaríbúafjölda Allir nota málið
Umdæmi eða svið sem málið er notað í Málið er notað á öllum sviðum og til allra þarfa
Viðbrögð málsins við nýjum sviðum og miðlum Málið er notað á öllum nýjum sviðum
Kennsluefni í máli og læsi Málið á sér stafsetningu, rithefð, málfræðibækur, orðabækur, texta, bókmenntir og fjölmiðla. Ritmálið er notað í stjórnsýslu og menntun

Utanaðkomandi áreiti á tungumálið hefur stóraukist á síðasta áratug, bæði af völdum þjóðfélagsbreytinga og tæknibreytinga. Þeim íbúum landsins sem ekki tala íslensku fer t.d. ört fjölgandi, og enskunotkun fer vaxandi á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, háskólakennslu, viðskiptalífinu og víðar. Jafnframt hafa komið fram vangaveltur um hugsanlega truflun á máltöku vegna ónógrar íslensku í málumhverfinu. Þá valda þættir eins og snjalltækjanotkun, áhorf á efni á erlendum efnisveitum eins og YouTube og Netflix, alþjóðavæðing o.fl. auknum þrýsting á íslenskuna og langtímaáhrif þessara þátta eru óljós.

Sem betur fer höfum við það í hendi okkar að bregðast við öllum þessum hugsanlegu ógnunum. Sumt er á ábyrgð stjórnvalda, ekki síst að gera íslensku gjaldgenga í stafrænu umhverfi, og nú er verið að gera átak í því. Það þarf líka að styðja myndarlega við gerð vandaðs og áhugaverðs fræðslu- og afþreyingarefnis á íslensku – bóka, sjónvarpsþátta, margmiðlunarefnis, tölvuleikja o.fl. Einnig er brýnt að stórauka og bæta kennslu í íslensku sem öðru máli fyrir fólk sem hér býr og starfar.

En á endanum byggist þetta ekki síst á foreldrum, heimilum og skólum – við þurfum að tala við börnin, lesa fyrir þau og hvetja þau til lestrar, og vekja með þeim áhuga á íslenskunni og rækta jákvætt viðhorf til hennar. Við þurfum að hætta ófrjóu málfræðistagli í kennslu og láta skapandi vinnu með málið koma í staðinn. Og við þurfum að stuðla að því að börnin verji minni tíma í enskum málheimi – ekki með boðum og bönnum, heldur með því að bjóða þeim upp á áhugavert efni á íslensku í staðinn.

Það er okkar að sjá til þess að íslenskan lifi. Ef við höfum ekki áhuga á því að halda í málið og þar með þau menningarverðmæti sem það geymir er það dauðadæmt. Ábyrgðin er okkar.