Ytri áhrifavaldar á íslensku

Þótt staða íslenskunnar virðist góð á yfirborðinu er hún brot­hætt – það þarf e.t.v. ekki mikið til að fari að molna úr undirstöðunum, og utanaðkomandi áreiti á ís­lensk­una hefur vaxið mjög mikið undanfarinn áratug. Ástæður þess eru bæði þjóðfélagsbreytingar og tæknibreytingar, einkum þessar:

  • Ferðamannastraumurinn. Fjölgun ferðamanna hefur haft mikil áhrif á stöðu íslenskunnar bæði í viðskipta­lífinu og menningarlífinu. Verslanir leggja sífellt meiri áherslu á að höfða til út­lend­inga með auglýsingum og vörumerkingum á ensku, og sleppa jafn­vel íslenskunni. Menningarviðburðir af ýmsu tagi, s.s. tónleikar og leik­sýn­ingar, fara einnig í auknum mæli fram á ensku til að ná til ferða­manna.
  • Fjölgun fólks með annað móðurmál. Fólki með annað móðurmál en ís­lensku hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Þar er aðallega um að ræða erlent vinnu­afl, einkum í byggingariðnaði og þjónustugreinum, en einnig flóttafólk. Reiknað hefur verið út að þörf sé á stórfelldum innflutningi vinnuafls á næstu árum, þannig að búast megi við því að 15% íbúa lands­ins verði af erlendum uppruna árið 2030.
  • Háskólastarf á ensku. Skiptinemum og öðr­um erlendum stúdentum við ís­lenska háskóla fer fjölg­andi og einnig erlendum kennurum. Vaxandi hluti há­skóla­kennslu fer því fram á ensku. Jafnframt er sífellt meiri áhersla lögð á virka þátt­töku í alþjóð­legu háskóla­starfi þar sem enska er aðaltungumálið. Þjálfun stúdenta í að fjalla um viðfangsefni sín á íslensku fer því minnkandi og hætt við að færnin geri það líka.
  • Alþjóðavæðingin. Breytt heimsmynd hefur leitt til þess að fólk er hreyfanlegra en áður og íslenskir unglingar sjá ekki framtíð sína endilega á Ís­landi. Í nýlegri könn­un kom fram að helmingur 15-16 ára unglinga á Íslandi vill búa erlendis í framtíðinni – var þriðjungur fyrir hrun. Ekki er ótrúlegt að þetta hafi áhrif á við­horf ung­linga til íslenskunnar sem þeir vita að gagnast þeim lítið erlendis.
  • Snjalltækjabyltingin. Flestir Íslendingar, a.m.k. yngra fólk, eiga snjallsíma eða spjald­tölvur nema hvorttveggja sé. Í gegnum þau tæki er fólk sítengt við al­þjóð­legan menningarheim sem er að verulegu leyti á ensku, þar er fólk að spila leiki á ensku, horfa á myndefni á ensku o.s.frv. Notendur þessara tækja eru sífellt með þau á lofti og þannig hefur dregið úr venjulegum samskiptum á ís­lensku.
  • Gagnvirkir tölvuleikir. Margir, einkum yngra fólk, spila mikið af tölvu­leikjum sem eru undantekningarlaust á ensku. . Leikirnir eru iðu­lega gagn­virkir – krefjast mállegra samskipta, og vegna þess að margir þeirra eru spil­aðir á netinu geta þátttakendur geta verið víða um heim og samskiptin fara því oft fram á ensku. Sú málkunnátta sem þann­ig byggist upp er því virk og gerir meiri kröfur til notenda en óvirk kunn­átta.
  • Efnis- og streymisveitur. Nær allir Íslendingar eru nettengdir og hafa þannig aðgang að ótakmörkuðu myndefni á YouTube, Netflix og öðrum efnis­- og streymisveitum. Börn og unglingar eru helstu neytendur þessa efnis og hjá þeim hefur áhorf á slíkt efni sem vita­skuld er mestallt á ensku og ótextað komið að verulegu leyti í stað áhorfs á línulegt sjónvarp með íslensku tali eða textað á íslensku.
  • Talstýring tækja. Flest tæki eru nú tölvustýrð að mestu leyti og þessum tækj­um verður á næstunni stjórnað með tungumálinu að miklu leyti. Margir þekkja nú þegar leiðsögutæki í bílum, eða Siri í iPhone, eða sjón­vörp sem talað er við. Framfarir í talgreiningu eru stórstígar og búast má við að ýmsum algengum heimilistækjum verði stjórnað með því að tala við þau – á ensku ef íslensk talgreining verður ekki í boði.

Allt er þetta jákvætt, út af fyrir sig. Það er gott að fólk eigi kost á fjölbreyttri af­þrey­ingu og samskiptum, ferðamannastraumurinn (sem nú er að vísu tímabundi hlé á) er kærkomin innspýting í efnahags­lífið, fjölg­un inn­flytj­enda vinnur gegn lækkandi fæðingartíðni og eykur fjölbreytni þjóð­lífs­ins, og það er þægilegt að geta stjórnað tækjum með því að tala við þau.

Vitanlega er líka frá­bært að æska landsins skuli eiga kost á því að taka þátt í alþjóðlegu rannsóknar- og þró­unar­starfi, sækja sér menntun og atvinnu hvert sem hana lystir og búa erlendis um skemmri tíma eða til lang­frama. Það er heldur ekki nema gott um það að segja að Ís­lend­ingar læri ensku sem yngstir og sem best því að hún er vitanlega lykill að svo mörgu.

En þótt umræddar breytingar séu þannig jákvæðar að mestu leyti skapa þær mikið álag og þrýsting á íslenskuna. Sá tími sem varið er í af­þrey­ingu, sam­skipti og störf á ensku er að mestu leyti tekinn frá íslensk­unni. Þess vegna þarf að bjóða upp á fjölbreytt fræðslu- og afþreyingarefni á íslensku – gera íslenskuna áhugaverða og spennandi og skapa jákvætt viðhorf til hennar.

Til að verða öruggir málnotendur þurfa börn og ung­lingar að hafa mikla íslensku í öllu mál­um­hverfi sínu. Það er á okkar ábyrgð að sjá til þess að svo sé – með samtali, lestri og hvers kyns hvatningu til að hlusta á, tala, lesa og skrifa íslensku.