Hugsanleg áhrif aukinnar enskunotkunar

Áhrif aukinnar enskunotkunar í íslensku málumhverfi gætu verið margvísleg og varðað bæði form málsins, þ.e. hljóðkerfi, beygingar, setningagerð, merkingu og orðaforða, og umdæmi þess, þ.e. þau svið þjóðlífsins þar sem tungumálið er notað. Áhrifin gætu komið fram á a.m.k. fernan hátt:

  • Áhrif ensku á íslenskt málkerfi aukast. Þetta getur komið fram í beinum áhrif á orðaforða og merkingu orða, en einnig má búast við áhrifum á setningagerð og hugsanlega beygingar og framburð. Áhrifin geta einnig verið óbein, þannig að sjaldgæf eða flókin málfarsatriði veikist vegna minnkandi íslensku í málumhverfi barna og unglinga.
  • Íslenska í málumhverfinu minnkar. Snjalltækjanotkun, sjónvarpsáhorf o.fl. getur leitt til þess að börn á máltökuskeiði verji stórum hluta dagsins í enskum málheimi og heyri þar af leiðandi minni íslensku talaða. Afleiðingin gæti orðið sú að íslenskan í málumhverfinu nægi ekki til að byggja upp sterkt málkerfi og mál­kennd hjá börnum.
  • Notkunarsvið íslensku skerðist. Notkun ensku hefur þegar aukist, og notkun ís­lensku minnkað að sama skapi, á nokkrum sviðum – í viðskiptalífinu, í ferða­þjónustu, í háskólakennslu, og í margs kyns samskiptum við tölvur. Ef íslenska missir einstök svið til enskunnar að verulegu leyti getur verið erfitt eða ógerningur að ná þeim til baka.
  • Virðing fyrir tungumálinu minnkar. Ef íslenska verður ekki nothæf eða notuð á öllum sviðum samfélagsins gæti hún fengið á sig þann stimpil að vera gamal­dags og hallærisleg. Það gæti dregið úr áhuga fólks á að tileinka sér hana vel og leitt til þess að fólk leggi meiri áherslu á ensku vegna þess að það telji hana gefa meiri möguleika.

Það er sameiginlegt öllum þessum atriðum að þau tengjast bæði formi og umdæmi máls­ins. Áhrif á málkerfið og minnkuð íslenska í málumhverfinu varðar vissulega einkum form­ið, fljótt á litið a.m.k., en þetta gæti hvorttveggja leitt til aukinnar óvissu um íslenska málnotkun og þannig stuðlað að því að málnotendur leiti fremur í faðm enskunnar. Skert notk­unarsvið málsins og minnkandi virðing varðar einkum umdæmið, en gæti einnig haft áhrif á formið.

Það er ljóst að allra þessara þátta sér nú þegar stað í íslensku og íslensku málsamfélagi, eins og kom m.a. fram í rannsókninni „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stýrðum á árunum 2016-2019. Ekkert bendir samt til annars en þau áhrif sem þegar gætir séu afturkræf að mestu leyti. Þess vegna skiptir öllu máli að við hlúum að íslenskunni og styrkjum hana til að hún geti staðist utanaðkomandi áreiti.

Það þarf samt að gæta þess að barátta fyrir íslenskunni snúist ekki upp í baráttu gegn enskunni. Enska er ekki óvinurinn – enska er alþjóðlegt samskiptamál sem mikilvægt er að hafa gott vald á. Óvinurinn er andvaraleysi málnotenda og metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar. Gegn því þarf að vinna.