Spá Rasks og samtíminn

Árið 1813, fyrir rúmum 200 árum, skrifaði danski málfræðingurinn Rasmus Christian Rask vini sínum Bjarna Thorsteinssyni amtmanni bréf sem oft er vitnað til. Þar segir: „Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenzkan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokk­ur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða ramm­ar skorð­ur við reistar.“

Íslenska var enn töluð í Reykjavík 100 árum síðar, 1913, enda hófu Rask og aðrir að reisa við „rammar skorður“ á næstu árum eftir þetta. Þótt svo hefði ekki verið gert er trúlegt að íslenska væri enn notuð í Reykja­vík og ann­ars staðar á landinu, en sú íslenska væri líklega töluvert öðru­vísi en sú sem við tölum nú. En Rask er svo sannarlega ekki einn um að hafa spáð hnignun og dauða íslenskunnar undan­farin 200 ár.

Hér er ekki ætlunin að rekja þá sögu en frá síðustu áratugum má t.d. nefna ráðstefnu „um varðveislu og eflingu íslenskrar tungu“ sem mennta­málaráðherra stóð fyrir í Þjóðleikhúsinu 1. desember 1985, og „Ráð­stefnu um stöðu máls­ins“ sem var haldin í Norræna húsinu árið 2006 að frumkvæði nokk­urra áhugamanna og með tilstyrk Fé­lags ís­lenskra bóka­útgef­enda og Rithöfunda­sam­bands Íslands. Á báðum þessum ráðstefnum var dregin upp dökk mynd af stöðu og framtíð íslenskunnar.

Í setn­ingar­ávarpi fyrrnefndu ráðstefnunnar sagði ráð­herra að ís­lenska ætti „í vök að verjast“ og væri á „undanhaldi“, og á þeirri síðar sagði einn frummælenda m.a.: „Sjálfar undirstöður tungumálsins eru að bresta. Beygingakerfið er í uppnámi og setn­ingafræðilegur grundvöllur líka. Svo virðist sem tilfinning fólks fyrir upp­bygg­ingu eðlilegra og einfaldra setninga sé á mjög hröðu undanhaldi.“

Spár um hnign­un og dauða íslenskunnar hafa í seinni tíð oft verið tengdar tækni­nýj­ung­um, t.d. Kana­sjónvarpinu, gervihnattasjónvarpi, netinu, tölvuleikjum o.fl. En eru eitthvað meiri líkur til þess nú en áður að „heimsendaspámenn“ hafi rétt fyrir sér? Um það er ekki gott að segja, en ég held að aðstæður nú séu að minnsta kosti að þrennu leyti andstæðari íslenskunni en áður hefur verið:

  • Meira og víðtækara áreiti. Enskan í málumhverfinu er miklu meiri og á fleiri sviðum en erlent mál hefur nokkru sinni verið, eins og rakið var í pistli hér nýlega. Málsambýli íslensku og ensku er því miklu nánara en áður – bæði í raunheimi en ekki síður hinum stafræna heimi nets, snjalltækja og tölvuleikja sem stór hluti málnotenda lifir nú og hrærist í.
  • Yngri viðtakendur. Börn á máltökuskeiði eru langsamlega viðkvæmust fyrir ýmiss konar ytri áhrifum á tungumálið. Enskt máláreiti nær nú til mun yngri barna en áður gegnum snjall­tæki og sjónvarpsáhorf. Dönsk áhrif á 19. öld náðu lítið sem ekkert til barna á máltökuskeiði, og ensk áhrif allt frá stríðsárum náðu lengi einkum til fullorðinna þótt það hafi verið að breytast.
  • Gagnvirkni. Vissulega hafa Íslendingar horft á sjónvarpsefni á ensku frá tímum Kanasjónvarpsins fyrir 60 árum en enskunotkun málnotenda, einkum barna og ung­linga, er mun gag­nvirkari en áður – í stað þess að vera að miklu leyti bundin við ein­hliða miðl­un þar sem fólk eru óvirkir viðtakendur er enskan núna orðin virkt samskiptatæki við fólk og tölvur.

Að svo stöddu er ekki hægt að fullyrða neitt um áhrif samfélags- og tækni­breytinga síðustu ára á tungumálið, enda getur tekið nokkurn tíma fyrir hugsanleg áhrif að koma fram. Enn er því ekki útséð um að seinni hluti áðurnefnds spádóms Rasks rætist, þ.e. að ís­lenska verði horfin af landinu öllu árið 2113. En við getum afstýrt því að svo verði – ef við viljum.