Áhafnarmeðlimir og skipverjar

Um daginn sá ég einu sinni sem oftar kvartað yfir orðinu áhafnarmeðlimur. Þetta orð, sem virðist ekki vera nema rúmlega 60 ára gamalt í málinu, er meðal þeirra orða sem oftast eru gerðar athugasemdir við í ýmsum málfarsþáttum – það þykir langt, stirt, útlenskulegt og ljótt. Í fljótu bragði fann ég 15 dæmi á tímarit.is þar sem amast var við orðinu, þar af sex úr þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu. Í þessum athugasemdum er yfirleitt bent á einfalda og þægilega leið til að komast hjá notkun þessa orðs, sem sé að nota orðið skipverji í staðinn.

Vissulega er skipverji miklu styttra og liprara orð, kemur fyrir í fornmáli, og er auk þess fallegra orð að flestra mati þótt það sé að sjálfsögðu smekksatriði. Í Íslenskri orðabók er áhafnarmeðlimur merkt með !? sem merkir „orð eða málatriði sem nýtur ekki fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“ og skýrt sem bæði 'skipverji' og 'flugverji' – vegna þess að áhöfn er ekki bara á skipi. Í Málfarsbankanum segir: „Fremur en að nota orðið „áhafnarmeðlimur“ ætti að nota: skipverji, einn úr áhöfninni, flugverji.“ En er þetta rétt – merkja orðin áhafnarmeðlimur og skipverji örugglega það sama?

Einu sinni þegar ég var að skoða dæmin um orðið skipverji í Íslendingasögum áttaði ég mig á því að í fornu máli merkir orðið ekki bara 'einn af starfsmönnunum á skipi, einn úr áhöfn skips'. Í næstum öllum dæmunum er nefnilega talað um skipverja sína, skipverja hans o.s.frv. Í fornmáli hagar orðið sér því svipað og t.d. orðin liðsmaður eða stuðningsmaður – það er ekki hægt að vera bara liðsmaður, heldur verður að vera liðsmaður einhvers. En þetta hefur breyst – í nútímamáli lýtur orðið ekki þessum takmörkunum, eins og auðvelt er að ganga úr skugga um t.d. í Risamálheildinni.

Ég hélt á sínum tíma að þarna hefði ég gert merka uppgötvun, en svo kom í ljós að norski sveitapresturinn Johan Fritzner, sem samdi ítarlegustu orðabók sem hefur verið gefin út um fornmálið, var að sjálfsögðu með þetta á hreinu fyrir 150 árum – skýringin á skipverji hjá honum er „Mand som er sammen med en (e-s) paa et Fartøi“. Þarna er skipverji því fyrst og fremst tengt við foringjann, en nú við skipið – skipverji á togaranum. Ég er hins vegar nokkurn veginn viss um að þessi merkingarbreyting hefur farið fram hjá öllum venjulegum lesendum íslenskra fornbókmennta – sem skiljanlegt er.

Samhengið í íslensku máli og bókmenntum er oft vegsamað, með réttu. Vegna þess að orðaforði fornmáls og beygingarkerfið hefur varðveist að mestu leyti eigum við tiltölulega auðvelt með að lesa forna frásagnartexta, að því tilskildu að þeir séu gefnir út með nútímastafsetningu. En það leiðir til þess að við gefum okkur venjulega án umhugsunar að orð sem við finnum í fornum texta, og þekkjum úr okkar eigin máli, merki hið sama og það gerir nú – a.m.k. ef samhengið bendir ekki til annars. Það hvarflar ekki að okkur að fletta slíku orði upp í fornmálsorðabókum (auk þess sem orðabók Fritzners var ekki almenningseign þótt hún sé reyndar komin á netið).

Mér finnst þetta skemmtilegt dæmi um hvernig stöðugleiki málsins, svo ágætur sem hann annars er, getur leitt mann á villigötur. Í þessu tilviki má auðvitað segja að munurinn sé sáralítill – skiptir einhverju máli hvort einhver var skipverji konungs eða skipverji á skipi konungs, hvort viðmiðið var foringinn eða skipið? Ég veit það ekki – en aðalatriðið er svo sem ekki hvort þetta skiptir máli í þessu tilviki, heldur að svipuð dæmi, þar sem samfella málsins veldur því að við áttum okkur ekki á merkingarbreytingum, eru örugglega fjölmörg. Og í þeim sumum gæti breytingin skipt máli, jafnvel gerbreytt skilningi okkar á textanum. Höfum það í huga þegar við lesum forna texta.