Maður, manneskja – eða man?

Nýlega vakti Andrés Ingi Jónsson alþingismaður máls á því á Alþingi hvort ekki væri rétt að færa málfar þingsins í átt að kynhlutlausri málnotkun. Forsætisráðherra tók undir þetta og benti á að þegar væri farið að færa lagamál og opinbera málnotkun í þessa átt, t.d. í lögum um kynrænt sjálfræði og frumvarpi til laga um mannanöfn. Hins vegar varðaði þetta málstefnu Stjórnarráðsins og því væri eðlilegt að þessi umræða færi fram á vettvangi málnefndar Stjórnarráðsins.

Fyrir tveimur árum varpaði Jón Steindór Valdimarsson alþingismaður fram þeirri spurningu hvort rétt sé að taka íslenskt lagamál til endurskoðunar og fara yfir það með kynjagleraugum. Hann vísaði í skilgreiningu á nauðgun í 194. grein almennra hegningarlaga þar sem segir „Hver sem hefur sam­ræði eða önnur kyn­ferð­is­mök við mann án sam­þykkis hans ger­ist sekur um nauðgun“ og benti réttilega á að þessi orðanotkun „virð­ist ekki tala skýrt til kvenna“. Mikið er til í þessu.

Saga þessa orðalags er reyndar forvitnileg. Í almennum hegningarlögum frá 1940 var upphaflega alls staðar talað um kvenmann í þessari lagagrein – sú hugmynd að karlar gætu verið þolendur kynferðisbrota var ekki komin til. Þegar dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um breytingu á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna haustið 1991 var orðið manneskja sett í staðinn – væntanlega af því að frumvarpshöfundum hefur þótt orðið maður vísa um of til karlmanna í huga málnotenda.

Í áliti meirihluta allsherjarnefndar – fulltrúa allra flokka nema Kvennalistans – um frumvarpið segir hins vegar: „Enn fremur er lagt til að orðið „manneskja“ falli brott og í stað þess komi orðið: maður. Í íslensku máli tekur orðið maður bæði til karla og kvenna og þykir ekki fara vel á því í lagatexta að nota orðið manneskja“. Þessi breytingartillaga var samþykkt og því fór maður inn í endanlegan texta laganna og er þar enn eins og áður segir.

En minnihlutinn, fulltrúi Kvennalistans, var andvígur þessari breytingu: „Minni hlutinn styður þó ekki þær breytingartillögur sem lúta að orðalagi frumvarpsins, þ.e. að í stað orðsins „manneskja“ komi: maður og aðrar breytingar sem af því leiðir. Enda þótt orðið „maður“ sé oft notað bæði um karla og konur er rík hefð fyrir því í íslensku að orðið maður eigi aðeins við um karlmenn. [...] Ástæðulaust er að fúlsa við notkun hins kvenkennda orðs „manneskja“ þegar átt er við bæði kynin“.

Þarna var sem sé orðin athyglisverð breyting: Kringum 1970 barðist Rauðsokkahreyfingin fyrir því að fá það viðurkennt að konur væru líka menn. Það var mjög skiljanleg og eðlileg barátta. 20 árum síðar fannst Kvennalistakonum hins vegar orðið maður ekki vísa til sín. Það er líka mjög skiljanlegt og eðlilegt. Hin tvöfalda merking orðsins maður veldur því að það er að margra mati oft óheppilegt í hinni almennu merkingu. Hér vantar því heppilegt kynhlutlaust orð.

Það er víðar en í áðurnefndu lagafrumvarpi sem hefur verið reynt að nota orðið manneskja í þessum tilgangi – Ríkisútvarpið hefur t.d. undanfarin ár valið manneskju ársins. En manneskja er kvenkynsorð og ekki sérlega heppilegt sem kynhlutlaust orð því að það tengist konum ekkert síður en maður tengist körlum. Ég gæti ekki sagt Hvað ertu að gera maður? við konu en ekki heldur Hvað ertu að gera manneskja? við karl. Nýlega hefur hins vegar verið stungið upp á því að nýta orðið man í þessum tilgangi.

Vissulega hefur man merkinguna 'ófrjáls maður, karl eða kona' (auk merkingarinnar 'kona' í skáldamáli) en er ákaflega lítið notað í nútímamáli, nema helst í samsetningunni mansal. Það er ekki einsdæmi að gömul en lítið notuð orð séu endurnýtt og þeim gefin ný merking – en þó oftast skyld, sbr. sími sem merkti 'band, þráður', og skjár sem merkti 'gegnsæ himna í glugga, gluggi'. Kosturinn við man er að það er hvorugkynsorð og hefur hljóðfræðileg og merkingarleg tengsl við maður og manneskja.

Ég veit ekki til að þessi notkun orðsins man hafi breiðst út að ráði, en Helga Vala Helgadóttir hefur þó notað orðið þingman um sjálfa sig. Mér finnst þetta hreint ekki galið en hins vegar er ekki einfalt að breyta svo rótgrónum þætti málsins og skal engu spáð um framtíð þessarar málnotkunar. Ef eingöngu konur taka hana upp er hættan sú að fólk fari að tengja man við konur og það verði þá ónothæft sem kynhlutlaust orð – eins og manneskja.