Tvítala

Fornafnið hán bættist í málið fyrir nokkrum árum og er þriðju persónu fornafn í hvorugkyni, notað um fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns. Venjulega hvorugkynsfornafnið í þriðju persónu er auðvitað það, en það er ekki hentugt til að nota um fólk. Upptaka hán hefur stundum mætt nokkurri andstöðu og meðal þeirra röksemda sem hefur verið beitt gegn orðinu er að fornöfn séu lokaður flokkur orða, öfugt við nafnorð, sagnir og lýsingarorð sem taki greiðlega við nýjum orðum. En þótt vissulega sé venja í málfræðilegri umræðu að gera mun á opnum og lokuðum orðflokkum er það ekki svo að „lokuðu“ orðflokkarnir séu harðlokaðir. Og svo má líka segja að það sé ágætt að bæta persónufornöfnunum upp það sem þau hafa misst – tvítöluna.

Í nútímamáli hafa fornöfn, eins og nafnorð, lýsingarorð og sagnir, tvær tölur – eintölu sem vísar til eins og fleirtölu sem vísar til fleiri en eins. En í fornu máli höfðu fornöfn fyrstu og annarrar persónu og eignarfornöfn þrjár tölur – eintölu, tvítölu og fleirtölu. Eintalan vísaði til eins, rétt eins og nú, en tvítalan til tveggja, hvorki fleiri né færri. Fleirtalan vísaði þá ekki til fleiri en eins, heldur fleiri en tveggja. Orðin ég og þú vísuðu til eins, við og þið til tveggja, en vér og þér til fleiri en tveggja. Breytingin er sem sé sú að fleirtalan hefur yfirtekið verksvið tvítölunnar og vísar nú til fleiri en eins. En það þýðir ekki að gömlu tvítölufornöfnin hafi horfið eins og kannski hefði mátt búast við, heldur víkkaði verksvið þeirra þannig að þau vísa nú til tveggja og fleiri – ekki bara tveggja eins og þau gerðu áður.

Gömlu fleirtöluorðin, vér og þér, misstu því það hlutverk sitt að tákna fleiri en tvo. En þau fengu nýtt hlutverk í hátíðlegu máli og gátu þar vísað hvort heldur sem var til eins eða fleiri. Þéringar tíðkuðust í íslensku fram á seinni hluta síðustu aldar – þá var sagt þér eruð beðnir að koma … og yður er boðið að koma … í stað þú ert beðinn / þið eruð beðin að koma … og þér/ykkur er boðið að koma …. Þéringar lögðust af að mestu leyti upp úr 1970 þótt þeim bregði fyrir enn í formlegum bréfum. Gamla fleirtöluformið í fyrstu persónu, vér, var einnig notað í hátíðlegu máli í vísun til eins eða fleiri. Stjórnmálamenn og embættismenn sögðu t.d. iðulega vér Íslendingar, en einnig vér erum … og var þá ekki alltaf ljóst hvort þeir áttu eingöngu við sjálfa sig eða hóp fólks, jafnvel þjóðina alla. Þessi notkun er nú nær horfin.

Tvítalan var ekki bara í persónufornöfnum, heldur líka í eignarfornöfnum – en þar hvarf ekki bara tvítalan, heldur ýmis fleirtöluform líka. Sérstök eignarfornöfn í nútímamáli eru fjögur; minn, þinn, sinn og vor. Merkingarlega og sögulega er vor fleirtala af minn, þótt orðið sé nú bundið við hátíðlegt mál og eignarfallið okkar af persónufornafninu við notað þess í stað – við segjum þetta er húsið okkar frekar en þetta er vort hús. Í annarri persónu er aftur á móti engin hátíðleg hliðstæða við vor til í nútímamáli, heldur eingöngu eignarfallið ykkar. Ef nota þarf hátíðlegt orð er hægt að grípa til yðar, sem er eignarfall gamla fleirtölufornafnsins þér en ekki sérstakt eignarfornafn eins og vor, og segja þetta er yðar hús.

En í fornu máli var ekki einasta til önnur persóna fleirtölu, yðvarr, hliðstæð við vor, heldur voru líka til sérstök tvítöluform, okkarr og ykkarr. Þá var sagt ég hitti vin okkarn eða ég mætti vini okkrum eða ég fór til vinar okkars ef átt var við vin einhverra tveggja, mælandans og eins annars. Í nútímamáli notum við myndina okkar, eignarfall af persónufornafninu við, í öllum tilvikum. Væri vísað til vinar einhverra tveggja var sagt ég hitti vin ykkarn eða ég mætti vini ykkrum eða ég fór til vinar ykkars; en væri vísað til vinar einhverra þriggja var sagt ég hitti vin yðvarn eða ég mætti vini yðrum eða ég fór til vinar yðvars. Í nútímamáli notum við í öllum tilvikum myndina ykkar, eignarfall af persónufornafninu þið.

Á 14. eða 15. öld fóru skil tvítölu og fleirtölu að riðlast þannig að farið var að nota fleirtölumyndirnar þótt aðeins væri átt við tvo, og tvítölumyndirnar einnig um þrjá eða fleiri. Það var samt ekki fyrr en á 17. öld sem hratt undanhald tvítölunnar hófst, og á 18. öld hvarf greinarmunur tvítölu og fleirtölu alveg. Gömlu tvítölumyndirnar héldust þó í málinu í víkkaðri merkingu eins og áður segir, en gömlu fleirtölumyndirnar fengu nýtt hlutverk.