Gærkvöld

Orðið gærkvöld/gærkveld kemur nánast eingöngu fyrir með forsetningunni í sem getur tekið með sér bæði þolfall og þágufall. Orðið kvöld eitt og sér er alltaf endingarlaust í þolfalli en endar á -i í þágufalli, kvöldi. Í því orði er alveg ljóst að í tekur með sér þolfall – við segjum Ég kem í kvöld, en alls ekki *Ég kem í kvöldi. Samt segjum ekkert síður í gærkvöldi en í gærkvöld og hvort tveggja þykir gott og gilt – Málfarsbankinn segir: „Bæði er hægt að segja í gærkvöld og í gærkvöldi.“ Hvernig stendur á þessu?

Orðið gærkveld kemur fyrir í fornu máli og þá er ævinlega ritað í gærkveld en þegar kemur fram á 16. öld fara að koma dæmi um í gærkveldi/gærkvöldi. Alla tíð síðan virðast þessar myndir hafa verið notaðar samhliða en í gærkvöldi þó mun algengara. Dæmi um gærkvöldi/gærkveldi á tímarit.is eru rúmlega fjórum sinnum fleiri en um gærkvöld/gærkveld, og í Risamálheildinni eru dæmin um fyrrnefndu myndirnar hátt í þrefalt fleiri en um þær síðarnefndu. Það er því ljóst að löng og rík hefð er fyrir báðum myndum og fráleitt væri að telja aðra þeirra réttari en hina.

Ekki er gott að segja hvernig það kom til að farið var að nota myndina gærkvöldi í þessu sambandi. Reyndar má líka finna einstöku dæmi um í kveldi/kvöldi frá svipuðum tíma og elstu dæmin um í gærkveldi, og í morgni kemur einnig fyrir um svipað leyti. Þetta gæti bent til þess að tilhneiging til að láta í stjórna þágufalli í stað þolfalls í þessum samböndum hafi komið upp á þessum tíma en síðan horfið aftur – en þágufallsmyndin hafi þó haldist í sambandinu í gærkvöldi.

Ástæðan fyrir því að í gærkvöldi hélst í málinu, öfugt við í kvöldi og í morgni, er hugsanlega sú að gærkvöld kemur nær eingöngu fyrir í þessu sambandi eins og áður segir. Orðið kvöld er notað í margvíslegu samhengi og því skiptir máli hvort notuð er myndin kvöld eða kvöldi. Í gærkvöld(i) er hins vegar fast orðasamband og þess vegna hefur -i-endingin enga sérstaka þágufallsmerkingu þar. Í gærkvöld og í gærkvöldi verða bara valfrjáls tilbrigði orðasambandsins.