Hljóðafar íslenskra orða
Hvað einkennir íslensk orð? Hvernig þekkjum við orð af erlendum uppruna? Gæti *brukur verið íslenskt orð? En *brjukur? Áreiðanlega er erfitt að svara þessum spurningum svo að öllum líki, og ekki efamál að tilfinning málnotenda er misjöfn hvað þetta varðar. Þó er varla vafi á því að hljóðfræðileg gerð orðanna skiptir miklu máli. Alkunna er að tungumál hafa mjög mismunandi reglur um það hvaða hljóð geta staðið saman í orði. Um þetta gilda svonefndar hljóðskipunarreglur. Þetta eru ekki skráðar reglur sem við lærum í skóla, heldur mynstur sem við tileinkum okkur í máltökunni. Börn greina – ósjálfrátt og ómeðvitað – gerð þeirra orða sem þau læra, og koma sér upp hugmyndum um það hvernig íslensk orð geti verið.
Miklar hömlur eru á því hvaða hljóð geta raðast saman í íslenskum orðum. Því fer t.d. fjarri að hvaða sérhljóð sem er geti staðið með hvaða samhljóðaklasa sem er. Strengurinn *brjukur sem tekinn var sem dæmi hér að framan er t.d. tæpast hugsanlegur sem íslenskt orð, þótt brj- sé fullkomlega leyfilegur samhljóðaklasi í upphafi orða, sbr. brjálaður, Brjánn, brjósk, brjóta. En á og ó eru einu sérhljóðin sem geta komið á eftir þessum klasa (eins og mörgum tveggja og þriggja samhljóða framstöðuklösum með j). Það er samt ekki endilega víst að við höfum öll áttað okkur á þeim hömlum. Það er alveg hugsanlegt að sum okkar hafi ályktað sem svo (ómeðvitað) að það sé bara tilviljun að við höfum ekki heyrt orð með öðrum sérhljóðum en á og ó á eftir brj-, og myndu því samþykkja hvaða sérhljóð sem væri á eftir slíkum klasa.
Mörg tökuorð hafa á sér framandi yfirbragð vegna þess að hljóðasamböndin í þeim koma ekki fyrir í orðum af innlendum uppruna. Önnur falla fullkomlega inn í málið þannig að ekki sér missmíði á. Kvenkynsorðið blók ‘ræfill, óþokki’ er „ungt to. úr e. bloke ‘ræfilmenni, (lélegur) náungi’“, segir í Íslenskri orðsifjabók. En orðið hefur fallið svo vel inn í málið að það myndar fleirtölu með i-hljóðvarpsvíxlum, blækur, hliðstætt við bók. Framstöðuklasinn bl- kemur fyrir í fjölda íslenskra orða, á eftir honum fer rótarsérhljóðið ó í algengum orðum eins og blóð, blóm, blóta; og nafnorð sem enda á -ók eru líka til, sbr. kvenkynsorðið bók og hvorugkynsorðið mók. Því er ekkert í fari þessa orðs sem bendir til erlends uppruna – nema það sé talið að orðið á sér enga ættingja í málinu, en það á líka við um ýmis rammíslensk orð.
Við tileinkum okkur reglur um leyfileg hljóðasambönd, eins og aðrar reglur málsins, með því að greina – ómeðvitað og ósjálfrátt – málið sem fyrir okkur er haft. En margar slíkar reglur taka einungis til fárra orða, stundum jafnvel sjaldgæfra, þannig að börn á máltökuskeiði hafa stundum mjög lítil gögn til að byggja á. Þess vegna má búast við að sumar slíkar reglur lærist seint, og sumir málnotendur læri þær jafnvel aldrei. Svo er líka spurning hvaða ályktun við drögum af því ef við heyrum ekki dæmi um eitthvað – ályktum við að fyrst við höfum aldrei heyrt það sé það ekki leyfilegt, eða gefum við okkur að það sé bara tilviljun að við höfum ekki heyrt slíkt dæmi og það sé örugglega leyfilegt? Þessu er erfitt að svara, en það er samt ljóst að viðbúið er að ýmsar reglur af þessu tagi glatist smátt og smátt og aðrar komi í staðinn.
En það er ekki bara hljóðskipun orða sem sker úr um það hvernig þau falla að íslensku máli – einnig þarf að huga að stöðu þeirra í málkerfinu. Enska orðið byte er gott dæmi um þetta. Það kom inn í málið fyrir 40 árum eða svo í myndinni bæt. Ekkert í gerð þess orðs er framandi íslenskri hljóðskipun. Ýmis algeng orð hefjast á bæ-, s.s. bæði, bæn, bæli, bæta o.s.frv. Einnig eru til orðmyndir sem enda á -æt, s.s. græt (af gráta), læt (af láta), sæt (af sætur), æt (af ætur) o.s.frv. En ekkert þessara orða er nafnorð í hvorugkyni – íslensk hvorugkynsorð enda ekki á -æt. Þess vegna þótti ástæða til að bæta -i við orðið, þannig að í Tölvuorðasafni birtist það í myndinni bæti. Þar með fellur það algerlega að málinu, því að ýmis hvorugkynsorð enda á -æti, s.s. sæti, læti, æti, ágæti o.fl.
Þetta dæmi sýnir að ekki er nóg að líta til einstakra orðhluta (myndana) þegar metið er hversu vel orð falli að íslensku máli. Þó að bæt sé leyfilegur orðhluti (rót) í íslensku getur (eða gat) það ekki verið hvorugkynsnafnorð (en væri hins vegar leyfileg kvenkynsmynd af lýsingarorðinu *bætur, ef til væri). En hitt er svo annað mál hvort reglan sem bannar hvorugkynsorð eins og bæt og læk sé hluti af málkerfi venjulegra málnotenda. Þegar höfundar Tölvuorðasafns höfnuðu bæt en bjuggu til bæti í staðinn var það byggt á málsöguþekkingu (þótt ég geti auðvitað ekkert fullyrt um máltilfinningu þeirra). En þessi regla hefur við svo lítið að styðjast að mér finnst ólíklegt að málnotendur átti sig á henni í máltökunni. Þá er spurningin: Er einhver ástæða til að láta hana ráða einhverju um það hvaða orð eru viðurkennd í málinu?