Ensk-íslensk orðabók

Útkoma Ensk-íslenskrar orðabókar með alfræðilegu ívafi 1984 er einn merkasti viðburður íslenskrar orðabókasögu og var bylting fyrir alla sem þurftu að vinna með enskan texta, ekki síst fræðimenn og nemendur. Ensk-íslensk orðabók var fyrsta íslenska orðabókin sem stór hópur sérfræðinga á ýmsum sviðum vann að. Hún leysti af hólmi áratuga gamla orðabók sem bæði hafði mun minni og fábreyttari orðaforða og var auk þess löngu orðin úrelt. Sú bók var því gagnslítil fyrir þá sem þurftu að lesa fræðilegan texta, ekki síst í raunvísindum og tækni, en einnig texta um ýmis dægurmál.

Til að skilja texta af því tagi leitaði fólk því mikið í ensk-enskar orðabækur eins og t.d. The Advanced Learners Dictionary of Current English, sem víða var notuð í skólum. En til að skilja skýringarnar í slíkum bókum þurfti oft verulega enskukunnáttu, og þótt notendur kæmust fram úr skýringunum og áttuðu sig á merkingu ensku orðanna var björninn ekki þar með unninn, því að ensku orðabækurnar komu vitaskuld ekki að gagni við að finna íslenskar samsvaranir. Ensk-íslensk orðabók kom því eins og himnasending sem skýrði fyrir notendum flókin orð og orðasambönd á skiljanlegri íslensku.

Orðabókin sýnir íslenskar samsvaranir enskra orða ef þær eru til, en útskýrir ensku orðin að öðrum kosti með umorðun, oft heilli setningu, í stað þess að reyna alltaf að búa til ný íslensk orð sem samsvöruðu þeim ensku nákvæmlega – og hefðu ekki verið neitt skiljanlegri fyrir notendur. Það er ekki hlutverk orðabóka að búa til orð, heldur að vera geymslustaður þeirra, brunnur sem málnotendur leita í. Myndefni bókarinnar er auk þess mjög gagnlegt til að skýra merkingu ýmissa orða betur eða á fljótlegri hátt en unnt er í orðum.

Það er því óhætt að segja að Ensk-íslensk orðabók hafi staðið undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar, og þeim fyrirheitum um gagnsemi sem gefin voru í inngangsorðum. Allt frá því að bókin kom út hefur hún – og rafræn útgáfa hennar sem lengi hefur verið aðgengileg á Snöru – nýst ótal mörgum til skilnings á margvíslegum textum. En það er kominn hálfur fjórði áratugur frá því að bókin kom út, og aldrei í sögunni hafa orðið jafnmiklar breytingar á umhverfi okkar og samfélagi á jafnstuttum tíma – ekki síst á sviði margs kyns tækni.

Þessar breytingar koma flestar til okkar frá hinum enskumælandi heimi og þeim hefur fylgt gífurlega mikill nýr orðaforði. Ef við rekumst á orð sem við þekkjum ekki í enskum texta eigum yfirleitt ekki í vandræðum með að finna skýringar á þeim á netinu, og okkur hefur í mörgum tilvikum tekist bærilega að smíða íslenskar samsvaranir þeirra. Í öðrum tilvikum hafa ensku orðin komist í almenna notkun í íslensku – mismikið aðlöguð íslensku málkerfi.

En hvort sem heldur er lendum við iðulega í vandræðum við að þýða enskan texta á íslensku vegna þess að við höfum engan gagnabanka að leita í. Ensk-íslensk orðabók hefur ekki verið uppfærð og í hana vantar því mikinn fjölda orða sem hafa komið til á síðustu áratugum – orða sem iðulega vísa til hluta, fyrirbæra og athafna sem nú eru eðlilegur og sjálfsagður hluti af daglegum veruleika alls almennings. Það er óviðunandi að hafa engan stað að leita í um merkingu og íslenskar samsvaranir slíkra orða.

Meginforsendan fyrir því að íslenskan eigi sér framtíð er sú að áfram verði unnt að nota hana á öllum sviðum. Til að svo megi vera þurfum við að hafa íslenskan orðaforða á þessum sviðum – og vita af honum. Það er því mjög mikilvægt að setja af stað vinnu við nýja rafræna ensk-íslenskra orðabók sem verði í stöðugri endurnýjun. Þar þurfa notendur að geta gengið að upplýsingum um hvaða orð eru notuð í íslensku til að samsvara tilteknum enskum orðum – hvort sem um er að ræða íslensk nýyrði eða tökuorð. Þessi orðabók þarf að vera öllum opin og ókeypis – og það þarf að byrja á henni strax.