Ákvæðisorð með tímaákvörðunum

Á undanförnum árum hef ég iðulega rekist á setningar eins og „Gætu verið ár í að klöppin hrynji“, „Æðislegt rjómapasta á mínútum“ og ýmsar fleiri í svipuðum dúr. Þarna eru orð sem vísa til tíma, ár og mínútur, notuð án nokkurs ákvæðisorðs. Það er ekki í samræmi við mína málkennd – ég get bara notað orðin svona í eintölu, ekki fleirtölu. Þegar um er að ræða orð í fleirtölu sem tákna tíma þarf yfirleitt að fylgja þeim eitthvert ákvæðisorð – töluorð, lýsingarorð eða óákveðið fornafn – í setningum af þessu tagi. Þetta er hins vegar eðlileg setningagerð í ensku.

Þar er eðlilegt að segja I worked for hours/days, en við getum ekki sagt *Ég vann í klukkustundir eða *Ég vann í daga (eða ég get a.m.k. ekki sagt þetta). Á íslensku verðum við í staðinn að segja t.d. Ég vann í fjórar klukkustundir og Ég vann í marga daga, eða Ég vann klukkustundum/dögum saman. Dæmin hér að framan þyrftu að vera Gætu verið nokkur ár í að klöppin hrynji og Æðislegt rjómapasta á örfáum mínútum eða eitthvað slíkt. Hins vegar er oft hægt að nota eintöluna án ákvæðisorðs – Gæti verið ár í að klöppin hrynji er t.d. mjög eðlilegt.

Bæði dæmin sem ég nefndi eru fyrirsagnir og það er vel þekkt að setningagerð þeirra er oft frábrugðin samfelldum texta, einkum þannig að orðum er iðulega sleppt í fyrirsögnunum. Það væri því hægt að láta sér detta í hug að þarna væri um slíkt að ræða, en svo er ekki – það sést á því að sama orðalag er endurtekið í fréttinni sem fyrri fyrirsögnin á við: „Ár gætu liðið þar til klöpp á Fagraskógarfjalli, þar sem sprunga myndaðist á dögunum, hrynur.“ Það mætti líka hugsa sér að líkindi við enskt orðalag stöfuðu af því að frumtexti skini í gegn, en í þessari frétt er a.m.k. ekki um það að ræða – hún segir frá íslenskum aðstæðum.

Það lítur því út fyrir að þarna sé ensk setningagerð að laumast inn í íslensku. Það má vissulega segja að þetta séu ekki stórkostleg málspjöll, en það er samt æskilegt að halda sig við málhefðina. Helsta umhugsunarefnið í sambandi við dæmi af þessu tagi er þó ekki breytingin sjálf, heldur þær vísbendingar sem hún gefur um að tilfinning okkar fyrir íslenskri málhefð gæti verið að dofna.