Fornafnið hán
Sumt fólk er kynsegin, skilgreinir sig ekki sem (eingöngu) annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Þetta fólk vill því ekki að persónufornöfnin hann og hún séu notuð um það – finnst þau ekki eiga við sig. Það vill reyndar svo vel til að íslensk málfræði býður upp á þriðja kynið, hvorugkyn, sem eins og orðið bendir til er hvorki karlkyn né kvenkyn, en vandinn er sá að hið venjulega þriðju persónu fornafn í hvorugkyni, það, er sjaldan notað til að vísa til fólks og ekki vel til þess fallið.
Þegar það er notað á þann hátt virðist það oft vera til að tala niður til fólks eða gera lítið úr því – a.m.k. er það upplifun margra að svo sé. Fólk sem hvorki vill skilgreina sig sem hann né hún, og finnst niðurlægjandi að það sé notað um það, var því í vanda. Við hefðum öll gott af að prófa að setja okkur í spor þessa fólks. Okkur liði ekki vel ef fjölskylda okkar og vinir ættu ekki orð til að tala um okkur – orð sem við gætum tekið til okkar. Okkur fyndist móðurmálið hafa brugðist okkur – ekki gera ráð fyrir okkur. Það er ekki góð tilfinning.
Þess vegna hafa komið fram nokkrar tillögur um nýtt hvorugkyns þriðju persónu fornafn sem nota mætti um fólk í stað það. Meðal þeirra eru hé og hín, en það orð sem hefur náð mestu flugi er hán, sem beygist hán – hán – háni – háns – í fleirtölu er notað þau – þau – þeim – þeirra. Fyrirmynd orðsins er sænska hvorugkynsfornafnið hen sem var búið til í stíl við han og hon sem kynhlutlaust persónufornafn fyrir nokkrum áratugum og hefur hlotið talsverða útbreiðslu. Sérhljóðið í hán, tvíhljóðið á, er samsett úr a og ú og tengir því hann og hún.
Þótt þau sé formlega séð fleirtala af það vísar orðið líka til blandaðs hóps karla og kvenna og er því mjög oft notað um fólk. Fleirtölumyndirnar hafa því ekki á sér þann neikvæða blæ sem það hefur þegar það er notað um fólk og þess vegna er engin ástæða til að skipta þeim út fyrir eitthvað annað. Þágufalls- og eignarfallsmyndirnar eru líka sameiginlegar öllum kynjum og því væri mjög óeðlilegt að setja eitthvað annað þar.
Hán er hvorugkynsfornafn og tekur með sér lýsingarorð í hvorugkyni – hán er skemmtilegt/ lasið/ ungt/ glatt o.s.frv. Ýmsum finnst þetta undarlegt og halda að þau sem vilja láta vísa til sín með hán séu á móti því að nota hvorugkyn um fólk. En svo er ekki – þau hafa ekkert á móti hvorugkyninu út af fyrir sig. Andstaðan beinist eingöngu gegn því að nota fornöfnin það og þetta í vísun til fólks, vegna þess að í þeirri notkun felist lítilsvirðing.
En upptaka hán er ekki óumdeild og hefur mætt nokkurri andstöðu. Mörgum finnst ótækt að taka upp nýtt fornafn og segja að það sé ekki hægt – þarna sé verið að breyta málkerfinu og bæta orði í lokaðan flokk. Hvort tveggja er rangt að mínu mati. Ég er talsmaður þess að hán fái þegnrétt í málinu og sé notað í vísun til þeirra sem ekki vilja láta nota karlkyns eða kvenkyns persónufornöfn um sig. Auðvitað verður engum skylt að nota það en þetta snýst um virðingu og tillitssemi gagnvart þeim sem er þetta hjartans mál.