Merking orðhluta og orða

Ný orð er hægt að mynda á ýmsan hátt úr íslensku hráefni. Ein helsta leiðin er að bæta forskeytum eða viðskeytum við rætur eða orð sem fyrir eru í málinu og mynda þannig afleidd orð. En þótt fjöldi forskeyta og viðskeyta sé til í málinu er aðeins hluti þeirra nothæfur í virkri orðmyndun. Það eru þau sem hafa tiltölulega fasta og afmarkaða merkingu í huga fólks. Af viðskeytum eru það t.d. -leg-ur, -un, -ar-i (-ur í -leg-ur og -i í -ar-i eru strangt tekið beygingarendingar en ekki hluti viðskeytanna). Það má segja að X+legur merki ‘sem líkist X, minnir á X, tengist X’ (kjánalegur er ‘sá sem líkist eða minnir á kjána’, tæknilegur er ‘sem tengist tækni’), X+un merkir ‘það að gera X’ (könnun er ‘það að kanna’), og X+ari merkir ‘sem gerir X’ (‘kennari er sá sem kennir’).

Þegar við heyrum eða sjáum nýtt orð sem er myndað með einhverju framantalinna viðskeyta er það venjulega gagnsætt – við skiljum um leið við hvað er átt, vegna þess að við þekkjum orðhlutana og vitum hvað þeir merkja, hver um sig. Vissulega geta orðin stundum verið tvíræð þrátt fyrir það, en samhengið sker þá venjulega úr. Orð eins og prentari vísaði til skamms tíma til manns sem tilheyrði ákveðinni starfsgrein sem nú er úrelt en orðið þess í stað notað um tæki. Hvort sem heldur er fellur það að framangreindri reglu og merkir ‘sá sem prentar’, og væntanlega er venjulega hægt að ráða af samhenginu hvort um er að ræða mann eða tæki.

Mörg viðskeyti hafa hins vegar svo óljósa merkingu í huga nútímafólks að þau eru ónothæf í virkri orðmyndun almennra málnotenda. Þetta eru viðskeyti eins og t.d. -ald (m.a. í kafald, folald), -erni (m.a. í þjóðerni, víðerni), -uð-ur (m.a. í söfnuður, fögnuður) og ýmis fleiri. Það er vissulega hægt að mynda ný orð með þessum viðskeytum, og það er iðulega gert í lærðri orðmyndun. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands notaði t.d. -ald til að smíða orðin mótald og pakkald fyrir fáum áratugum og þau er að finna í Tölvuorðasafni. En við þurfum að læra merkingu þeirra sérstaklega – hún er ekki augljós út frá merkingu orðhlutanna vegna þess að –ald hefur enga afmarkaða merkingu í nútímamáli. Sama máli gegnir um fjölda annarra viðskeyta.

Viðskeytin sem nú eru ógagnsæ og hafa enga sjálfstæða merkingu hafa mörg hver verið gagnsæ og virk til nýmyndunar á fyrri stigum málsins, jafnvel fyrir daga íslenskunnar. En þegar orð hefur einu sinni verið búið til og kemst í notkun fer það að lifa sjálfstæðu lífi, meira og minna óháð einingunum sem það er smíðað úr – það hættir að vera einhvers konar summa af merkingu þeirra. Við getum tengt orð eins og þjóðerni við þjóð – en hvað merkir -erni? Hefur það sömu merkingu og í víðerni, bróðerni, líferni og salerni? Það er erfitt að halda því fram að svo sé – -erni virðist ekki hafa neinn sameiginlegan merkingarþátt í þessum orðum. Við lærum merkingu orðanna í heild, hvers fyrir sig, án stuðnings af öðrum orðum með sama viðskeyti.

En sama gerist líka, þótt í minna mæli sé, með viðskeyti sem hafa tiltölulega fasta og afmarkaða merkingu í nútímamáli. Orð mynduð með þeim breyta stundum að einhverju leyti tengslunum við upprunann eða rjúfa þau. Þetta getur meira að segja gerst með algengasta og virkasta viðskeyti málsins, -leg-ur – hvað er t.d. fal- í fallegur, lé- í lélegur, eða mögu- í mögulegur? Viðskeytið -ing er algengt til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum – teikning er ‘það að teikna’, kynning er ‘það að kynna’, æfing er ‘það að æfa’. En iðulega færist merkingin frá verknaðinum yfir á afurð hans eða útkomu. Þótt við getum sagt teikning myndarinnar tók langan tíma þar sem teikning vísar til verknaðarins er miklu algengara að nota orðið um myndina sem teiknuð var – þetta er vönduð teikning.