Órökrétt orð

Venjulega er sagt að hægt sé að brjóta orðin upp í byggingareiningar, myndön, sem hafi afmarkaða merkingu hver fyrir sig. Oft virðist þetta vera rétt – það er enginn vandi að skipta orði eins og snjóhús niður í snjó+hús og tengja fyrri hlutann við nafnorðið snjór og þann seinni við nafnorðið hús, og segja að merking orðsins sé leidd beint af merkingu orðhlutanna – þetta er eins konar hús gert úr snjó. Við getum líka tekið orðið eldhús og skipt því niður í eld+hús, og tengt fyrri liðinn við nafnorðið eldur og þann seinni við nafnorðið hús. En yfirleitt er enginn eldur í eldhúsum núorðið, og þar að auki er eldhús herbergi, hluti húss, en ekki sjálfstætt hús. Hér er ljóst hverjar byggingareiningar orðsins eru, en merking þess ræðst ekki af merkingu þeirra.

Þegar að er gáð er þetta regla frekar en undantekning. Það má líkja orðasmíði við frjóvgun. Þótt foreldrarnir leggi til hráefnið öðlast afkvæmið sjálfstætt líf og verður smátt og smátt óháðara foreldrunum. Orð sem eru gagnsæ í upphafi þróast þegar farið er að nota þau og tengslin við upprunann geta dofnað af ýmsum ástæðum, t.d. þjóðfélags- og tæknibreytingum. Í upphafi var eldhús t.d. iðulega sjálfstætt hús þar sem eldur brann. Orðið mús í merkingunni ‘stjórntæki tölvu’ er upphaflega líking, þegin úr ensku – auðskilin vegna stærðar og lögunar tækisins og ekki síst snúrunnar – skottsins. En nú er músin iðulega þráðlaus og jafnvel talað um svæði á lyklaborðinu sem mús – af því að það hefur sama hlutverk. Þar er líkingin fokin út í veður og vind, tengslin við upprunann rofin, en merkingin helst.

Stundum kemur upp innbyrðis ósamræmi milli orðhluta. Orðið glas merkir upphaflega ‘gler, glerílát’ en sú merking hefur dofnað í huga málnotenda þannig að nú finnst okkur ekkert athugavert við að tala um plastglas – eða glerglas, þar sem sama merkingin er í raun tvítekin. Fleirtöluorðið gleraugu hefur verið í málinu frá 17. öld og er gagnsæ orðmyndun – þetta eru eins konar augu úr gleri. En nú á tímum er ekki alltaf gler í gleraugum, heldur stundum plast, og því verður til orðið plastgleraugu sem eru með plastglerjum. Vitanlega er plastgleraugu undarlegt orð ef einstakir hlutar þess eru túlkaðir bókstaflega, en það gerum við ekki í venjulegri notkun, heldur skynjum orðið gleraugu sem heiti á tilteknu fyrirbæri, óháð efni sem í þau er notað.

Þessi dæmi sýna að það getur verið varasamt að nota merkingu einstakra orðhluta sem rök fyrir því að orð sé ranglega notað. Þetta á t.d. við um ýmsar lausar samsetningar þar sem fólk deilir um hvort eigi að nota eignarfall eintölu eða fleirtölu í fyrri lið. Það er engin fleirtölumerking í fyrri lið orðsins mánaðamót frekar en í nautakjöt eða lambalæri – en það er ekki heldur nein eintölumerking í fyrri lið myndarinnar mánaðarmót frekar en í rækjusamloka og perutré. Það er ekki heldur neinn vafi á því að myndirnar mánaðamót og mánaðarmót eru notaðar í sömu merkingu. Ef á að velja milli þeirra verður það val því að byggjast á einhverju öðru en merkingu – væntanlega á hefð, og hefðin fyrir mánaðamót er vissulega sterkari.