Hvað merkir gamall?
Einu sinni var ég kallaður „gamall íslenskuprófessor“ í frétt á mbl.is. Ég móðgaðist svo sem ekkert yfir því – fannst það bara fyndið. En í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér merkingu og notkun lýsingarorðsins gamall – af því að mér finnst ég ekkert svo gamall og þykist vita að það hafi ekki verið það sem blaðamaðurinn meinti. Í orðabókum er gamall skýrt 'með háan aldur að baki, sem hefur lifað/verið til í mörg ár' eða 'aldurhniginn, aldraður', auk þess sem tekið er fram að það hafi líka það hlutverk að standa með mælieiningu aldurs – barn sem er tveggja ára gamalt er vitanlega ekki 'aldrað'.
En svo er líka hægt að nota orðið hliðstætt með nafnorði án þess að um nokkra vísun til hás aldurs sé að ræða, í samböndum eins og gömul skólasystir mín, gamli vinur, gamli bíllinn minn, o.s.frv. Í fyrsta dæminu er vísað til konu sem var skólasystir mín fyrir löngu, í því næsta er vísað til þess að vináttan hafi staðið lengi, og í því síðasta er vísað til bíls sem ég átti á undan þeim sem ég á núna. Vissulega gæti gamall vísað til aldurs í þessum dæmum en aðalatriðið er að það þarf ekki að gera það. Það sem skiptir máli er að í þessum dæmum koma fram tengsl nafnorðsins sem gamall stendur með við mælandann, eða þann sem rætt er við eða um.
Þótt gamall standi þarna með nafnorði vísar það í raun ekki til eiginleika nafnorðsins sjálfs, heldur til þessara tengsla – aldurs þeirra eða afstöðu í tíma. Komi engin slík tengsl fram, eins og í dæminu gamall íslenskuprófessor í fréttinni á mbl.is, er ekki hægt að skilja orðið öðruvísi en svo að það merki 'aldraður'. Öðru máli gegnir ef þarna hefði staðið gamli íslenskuprófessorinn minn, eins og einu sinni var vísað til mín á prenti – þar sýnir eignarfornafnið minn tengslin, enda er höfundur þess pistils gamall (!) nemandi minn sem ég hef enga ástæðu til að ætla að hafi talið mig sérstaklega gamlan.
Þetta hafði ég aldrei hugsað út í áður, og þessi merking orðsins gamall er ekki nefnd í orðabókum svo að ég sjái. Svona er maður alltaf að átta sig á einhverju nýju í íslenskunni, jafnvel í algengustu orðum.