Hýryrði

Um daginn héldu Samtökin 78 aðra hýryrðakeppni sína. Að þessu sinni var verið að leita að kynhlutlausu orði sem samsvaraði karl og kona, og auk þess orðum um skyldleika og tengsl. Þar sem ég var í dómnefnd keppninnar finnst mér ástæða til að skýra nokkur atriði í sambandi við orðin og leiðrétta ýmsan misskilning sem hefur komið fram.

1. Orðin eru kvár, sem er hliðstætt við karl og konamágkvár, sem er hliðstætt við mágur og mágkonasvilkvár, sem er hliðstætt við svili og svilkona, og stálp, sem er hliðstætt við strákur og stelpa. Orðið kvár er ekki skylt eða dregið af neinu öðru orði í málinu – þetta eru bara hljóð sem er raðað saman í samræmi við íslenskar reglur. Orðið stálp er myndað með hliðsjón af lýsingarorðinu stálpaður.

2. Þetta eru hvorugkynsorð og beygjast í samræmi við það. Beyging kvár er kvár – kvár – kvári – kvárs, í fleirtölu kvár – kvár – kvárum – kvára – með greini kvárið o.s.frv. Orðið beygist eins og t.d. hár og ár. Samsettu orðin mágkvár og svilkvár beygjast eins, og stálp beygist stálp – stálp – stálpi – stálps, í fleirtölu stálp – stálp – stálpum – stálpa, með greini stálpið o.s.frv.

3. Mörgum finnst þessi orð hljóma undarlega og jafnvel vera kjánaleg. Það er alveg eðlilegt – ný orð verka yfirleitt framandi á okkur. Það þarf að venjast þeim, og það tekur tíma. Mörg orð sem við notum athugasemdalaust og umhugsunarlaust á hverjum degi þóttu undarleg þegar þau komu fyrst fram. Einn helsti nýyrðasmiður landsins á síðustu öld, Halldór Halldórsson prófessor, sagði að það þyrfti að segja nýtt orð 60 sinnum til að venjast því. Prófið það!

4. Orðunum er ekki ætlað að koma í stað einhverra annarra orða eða útrýma þeim. Hér er um að ræða orð yfir kynsegin fólk – fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns. Tungumálið átti ekki orð yfir þetta fólk. Það stendur vitanlega ekki til að skylda fólk til að nota þessi orð en það er mikilvægt fyrir þau sem um ræðir, vini þeirra og fjölskyldur, að hægt sé að tala um þau á íslensku.

5. Í umræðunni hefur því verið haldið fram að það séu bara til tvö kyn, og þess vegna sé fráleitt að vera að búa til einhver orð til að vísa til einhvers sem er ekki til. Þetta er rangt. Í íslenskum lögum segir: „Sérhver einstaklingur nýtur […] óskoraðs réttar til að skilgreina kyn sitt.“ Það er til fjöldi fólks sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns og er í fullum rétti með það. Við þurfum að geta talað um og við það fólk – á íslensku.

6. Ýmsum hefur þótt ástæða til að nota tækifærið til að hnýta í kynsegin fólk og orð um það, og viðhafa ýmis óviðurkvæmileg ummæli. Ég held að þau sem það gera ættu aðeins að hugsa sinn gang. Kannski kemur kvár eða stálp í fjölskylduna einn daginn og þá viljið þið örugglega geta talað um og við hán af væntumþykju og virðingu.