„Þágufallssýki“ í máltöku

Máltaka barna er endalaust undrunarefni og gaman að fylgjast með henni með opnum huga því að „villur“ sem börnin gera geta sagt okkur ýmislegt um eðli tungumálsins. Þegar sonur minn var að byrja að mynda setningar tók ég eftir sérkennilegri notkun hans á sögnum eins og langa sem „eiga“ að taka með sér þolfall. Hann notaði vissulega þolfall, en hafði það á eftir sögninni – sagði t.d. langar mig í meira eða eitthvað slíkt. Bæði nefnifall og þágufall hafði hann hins vegar á undan sögninni eins og eðlilegt er – sagði t.d. ég vil meira og mér finnst þetta gott.

Þessi sérstaða þolfallsins verður tæpast skýrð með umhverfisáhrifum - hann var ekki byrjaður í leikskóla og hafði varla umgengist nokkurn sem sagði mér langar. Kenning mín er sú að það málkerfi sem hann var búinn að koma sér upp á þessum tíma hafi ekki viðurkennt þolfall sem frumlag – aðeins nefnifall og þágufall. Þess vegna hafi honum fundist óeðlilegt að hafa þolfallið í frumlagssæti og sett það þess í stað á eftir sögninni. Þetta skeið stóð aðeins í nokkrar vikur – svo fór hann að setja þolfallið í frumlagssæti eins og hin föllin.

Ég hef líka heyrt um börn sem sögðu ég langar mig í meira eða eitthvað slíkt – tvítóku frumlagið, höfðu nefnifall í venjulegu frumlagssæti á undan sögninni en þolfall á eftir sögn. Það má sennilega túlka á svipaðan hátt – barninu finnst óeðlilegt að byrja á þolfallinu og veit að algengast er að í frumlagssætinu sé nefnifall og setur því ég þar. En það áttar sig jafnframt á því að fullorðna fólkið notar þolfall með langa og ályktar sem svo að það hljóti að þurfa að vera með í setningunni – og setur því mig á eftir sögninni.

Það er langt síðan fyrst var bent á að „þágufallssýkin“ ætti sér merkingarlega skýringu. Flestar sagnir sem tákna tilfinningu, skynjun o.þ.h. taka með sér frumlag í þágufalli – sagnir eins og þykja, finnast, líka (við), leiðast, kólna, hlýna, vera kalt / heitt / illt / flökurt / óglatt / bumbult og margar fleiri. Börn á máltökuskeiði átta sig væntanlega á þessari meginreglu og beita henni á aðrar sagnir af sama merkingarsviði – sagnir eins og hlakkadreymalangavanta og fleiri. Þetta er því tilraun barnanna til að koma reglu á kerfið – gefa þágufallinu ákveðið merkingarlegt hlutverk. Það má jafnvel færa rök að því, eins og ég gerði í grein í Skímu 1983, að „þágufallssýkin“ styrki fallakerfið í sessi.

Það er því margt sem bendir til að hin svokallaða „þágufallssýki“ sé eða geti verið „sjálfsprottin“ ef svo má segja – hún þarf ekki að stafa af ytri áhrifum, heldur getur verið tilkomin vegna þess að þolfallsfrumlög samræmast málkerfinu ekki vel. Ég hef líka heyrt sögu af íslenskri fjölskyldu sem bjó erlendis fyrir nokkrum áratugum og umgekkst aðra Íslendinga lítið sem ekkert. Það kom foreldrunum mjög á óvart að börnin fóru að nota þágufall í stað þolfalls með sumum sögnum án þess að nokkur möguleiki væri á að þau hefðu heyrt það hjá öðrum