Íslenska í stjórnarskrá

Nýlega skrifaði Haukur Logi Karlsson nýdoktor mjög áhugaverða grein um ákvæði um íslensku sem ríkismál í frumvarpi forsætisráðherra til breytinga á stjórnarskrá. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“

Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá 2011 var ekkert ákvæði um íslenska tungu, en þessi tillaga er nokkurn veginn samhljóða ákvæði sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði til að yrði bætt við nýju stjórnarskrána þegar tillögur Stjórnlagaráðs voru til meðferðar á Alþingi 2013. En í tillögum Stjórnlagaráðs var einnig að finna svohljóðandi ákvæði:

„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Nýja stjórnarskráin hefur ekki verið samþykkt eins og alkunna er, og ákvæði sem bannar mismunun á grundvelli tungumáls er hvorki að finna í gildandi stjórnarskrá né fyrirliggjandi tillögum um stjórnarskrárbreytingar. Greinarhöfundur telur að með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um íslensku sem ríkismál, án þess að jafnframt sé lagt bann við mismunun vegna tungumáls, sé farið út á vafasama braut.

„Til­lagan styrkir, með öðrum orð­um, stöðu hinna valda­miklu og veikir stöðu hinna valda­lausu í íslensku sam­fé­lagi. Frum­varpið er því heilt yfir lík­legt til þess að ná mark­miði sínu um efl­ingu íslenskunnar, en það mun að lík­indum verða á kostnað þeirra Íslendinga og ann­arra íbúa lands­ins sem hafa ekki full­komin tök á íslensku.“

Það er sannarlega mikilvægt að styrkja stöðu íslenskunnar á allan hátt, eins og markmiðið er með þessari tillögu. En það má ekki verða á kostnað fólks sem þegar stendur höllum fæti í samfélaginu. Mér finnst greinarhöfundur færa sterk rök fyrir þeirri afstöðu að „tillaga um að gera íslensku að stjórn­ar­skrár­bundnu rík­is­máli [sé] verri kostur en að halda óbreyttu ástandi og sömu­leiðis verri kostur en að taka upp tungu­mála­á­kvæði Nýju stjórn­ar­skrár­inn­ar.“