-stst
Miðmynd sagna einkennist af endingunni -st sem kemur á eftir öðrum beygingarendingum, þ.e. endingum tíðar, háttar, persónu og tölu. Við segjum ég vonaði-st (til), þau vona-st, við vonuðum-st, ég hef vona-st, o.s.frv. Eins og sést á síðasta dæminu, lýsingarhættinum vonast, er það samt ekki alltaf þannig að miðmyndarendingin bætist við germyndina óbreytta. Lýsingarháttur þátíðar í germynd af vona er (ég hef) vonað, en í miðmyndinni er hann vona-st, ekki *vonað-st – ð fellur sem sagt aftan af germyndarforminu. Og stundum er brottfallið mun meira. Lýsingarháttur þátíðar í miðmynd af mæta, kyssa og festa er (við höfum) mæ-st / kys-st / fe-st en ekki *mætt-st / *kysst-st / *fest-st.
Áður fyrr var bókstafurinn z notaður í stað s til að sýna brottfall ð, d eða t í myndum af þessu tagi. Þannig var skrifað (ég hef) vonazt (vonað+st) / birzt (birt+st) o.s.frv. En z var bara látin tákna brottfall á einu (einföldu) hljóði – ef um brottfall tveggja hljóða (langs hljóðs) var að ræða var það fyrra áfram táknað í stafsetningunni. Lýsingarháttur þátíðar af mæta, sem endar í germynd á -tt, (ég hef) mætt, var því skrifaður (við höfum) mætzt (mætt+st). En bókstafurinn z var felldur brott úr íslensku ritmáli haustið 1973 með auglýsingu menntamálaráðuneytisins þar sem sagði: „Ekki skal rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (d, ð, t) + s, þar sem tannhljóðið er fallið brott í eðlilegum, skýrum framburði.“
Þessi breyting varðaði eingöngu stafsetningu enda átti z sér enga stoð í framburði – myndir eins og vonazt og mætzt voru bornar fram nákvæmlega eins og vonast og mæst. En í miðmynd lýsingarhátta sagna eins og kyssa og festa var aldrei nein z – þeir voru skrifaðir (við höfum) kysstst (kysst+st) / festst (fest+st). Þessu var hins vegar breytt líka í sömu auglýsingu – þar segir: „Ef lýsingarháttur þátíðar í germynd endar á -st eða -sst, skal miðmyndarendingu sleppt, t.d. (hefur) leyst (af leysast), (hefur) lýst (af lýsast), (hafa) kysst (af kyssast) o.s.frv.“ Væntanlega hefur nefndin sem lagði breytinguna til talið að -stst væri ekki borið fram og hafi einnig í þessu tilviki viljað færa stafsetninguna í átt til framburðar.
Í umræðu um miðmyndarsetningar eins og (bíllinn hefur) fest og (þau hafa) kysst í hópnum Málspjall á Facebook um daginn kom fram að sumum fannst eðlilegt að nota myndirnar festst og kysstst, og töldu sig gera það. Nú get ég vitanlega ekki fullyrt neitt um framburð tiltekins fólk og hef engan áhuga á því að stjórna málfari eins eða neins. En ég er samt ekki í nokkrum vafa um að venjulegur framburður þessara mynda er fest og kysst, enda eru klasar eins og -stst eru mjög erfiðir í framburði og hljóma oft óeðlilega ef fólk reynir að bera þá fram. Framburður eins og festst og kysstst er ofvöndun. Hins vegar er líklegt að þarna verði oft samlögun og borið sé fram langt s, þ.e. (bíllinn hefur) fess og (þau hafa) kyss.
Sú röksemd var nefnd fyrir framburði eins og festst og kysstst að ef seinna -st væri sleppt glataðist miðmyndarmerkingin. En það er byggt á misskilningi. Mjög oft falla beygingarmyndir saman og merkingin ræðst þá af samhengi fremur en að hún glatist. Við getum tekið dæmi af sögn eins og hitta. Hún ætti að fá endinguna -ti í þátíð, en vegna þess að stofninn endar á -tt kemur þátíðarendingin ekki fram, heldur rennur saman við stofninn – hitt+ti > hitti. Það þýðir að þátíðin fellur saman við nútíðina hitt-i > hitti – ég hitti hana í gær (þátíð), en ég hitti þig á morgun (nútíð). Það er samt engin ástæða til að segja að þátíðarmerkingu vanti í sögnina í ég hitti hana í gær – en við verðum að ráða hana af samhengi.