Veðurfarsorð
Í málfarshópum er fólk iðulega að amast við orðinu snjóstormur – kallar það ensku og gerir því skóna að það sé að útrýma rammíslenskum orðum sömu merkingar, eins og bylur, stórhríð, kafald o.s.frv. Auðvitað er snjóstormur íslenska en ekki enska – báðir orðhlutarnir íslenskir. Orðið verður ekki að ensku þótt hliðstæð samsetning sé vissulega til í ensku, og ekki heldur þótt sú samsetning kunni að vera fyrirmynd íslenska orðsins. Hitt er annað mál að vitanlega er fjölbreytni í orðavali æskileg og ekki gott ef þetta orð er að breiða sig út á kostnað annarra. En talning sem ég gerði á nokkrum orðum á þessu merkingarsviði á tímarit.is bendir sannarlega ekki til þess að svo sé.
En út frá þessu fór ég að hugsa um sögnina hríða. Þegar ég var að alast upp í Skagafirði var þessi sögn mikið notuð – það er farið að hríða o.þ.h. Mig minnir að notkun hennar hafi alls ekki verið bundin við storm og stórhríð heldur hafi hún eins verið notuð um smávægilega snjókomu í logni enda er orðið lognhríð til. Nú heyri ég þessa sögn aldrei og nota hana ekki sjálfur. Samkvæmt tímarit.is. var notkun hennar langmest milli 1950 og 1970, sem samræmist þeirri tilfinningu minni að hún hafi verið algeng í mínu ungdæmi, en datt niður eftir það. Kannski er hún á leið úr málinu – hún er t.d. ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Það hefur stundum borið á því að sagnir sem eru leiddar af nafnorðum án nokkurs viðskeytis hafi ekki þótt nógu góðar eða virðulegar, t.d. skíða, skauta o.fl. Mér datt í hug hvort hríða hefði hugsanlega orðið fórnarlamb einhvers konar misskilinnar málvöndunar. Það er samt bara hugdetta.