manneskjubein
Í Morgunblaðinu í dag er grein um „Afkynjun íslenskunnar“. Þar segist greinarhöfundur hafa hrokkið við þegar hann heyrði talað um manneskjubein í útvarpinu, en hafi svo áttað sig á því að þetta væri beint framhald af orðalaginu manneskja ársins sem Ríkisútvarpið hefur notað undanfarin ár í stað maður ársins. Í framhaldi af þessu segir höfundur: „Við erum orðin dauðhrædd við að taka okkur orðið „maður“ í munn. Það er að verða eitt ferlegasta bannorðið.“
Þetta er viðkvæmt og umdeilt mál sem ég hef áður skrifað um og ætla ekki að ræða í dag, nema til að benda á að á 19. öld var orðið manneskja iðulega notað þar sem nú væri venjulega notað orðið maður. Í Skírni 1830 segir t.d.: „Í þeirri fyrstu ritgjörð, um Frjálsræði manneskjunnar, [...]“, í Skírni 1846 segir „Margt er þá að hreifa sér, sem oss dauðlegum manneskjum er ómögulegt að sjá fyrir endann á“, og í Norðra 1859 segir „en svo veglegt er hið fegursta, sem syndug manneskja getur veitt hjer á jörðunni, fyrirgefningin“. Mikinn fjölda hliðstæðra dæma mætti nefna.
Það þarf því ekki að koma á óvart að manneskjubein er ekki nýsmíði einhverra ónafngreindra sem vilja afkynja íslenskuna á 21. öldinni, heldur hátt í 200 ára gamalt orð. Í sóknarlýsingu frá Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1841 er talað um „manneskjubein og litlar fornleifar aðrar, sem í fyrra fundust í jörðu nálægt bæ þeim er Björg heitir, skammt fyrir sunnan Friðriksgáfu“. Ég er ekki að halda því fram að orðið hafi lifað í málinu frá þessum tíma – bara benda á að orð af þessu tagi þurfa ekki endilega að bera vott um einhverjar þvingaðar málbreytingar.