Byrðing

Frá upphafi yfirstandandi heimsfaraldurs hafa fjölmörg ný orð bæst í málið, flest tengd sóttvarnarráðstöfunum. Önnur voru til í málinu fyrir en aðeins notuð af afmörkuðum hópum, en ber nú fyrir augu og eyru almennings. Eitt þeirra er orðið byrðing sem kemur fyrir í reglum og umræðum um sóttvarnaraðgerðir á flugvöllum. Þetta er íslensk samsvörun enska orðsins boarding og vísar til þess þegar farþegar ganga um borð í flugvél. Þótt orðið sé almenningi framandi hefur það verið notað í þessari merkingu í a.m.k. 20 ár.

Þetta er alveg eðlileg orðmyndun af sögninni byrða sem að vísu er sjaldan notuð nema í samsetningunni innbyrða en kemur þó fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 í merkingunni 'fara upp á skip'. (sbr. líka atviksorðið innbyrðis). Sögnin byrða er mynduð af borð með i-hljóðvarpi og byrðing síðan af sögninni með kvenkynsviðskeytinu -ing sem hefur upphaflega verknaðarmerkingu, 'það að gera' (þótt merkingin hafi iðulega færst yfir á afurð eða útkomu verknaðarins) – teikning merkir 'það að teikna', bylting merkir 'það að bylta' og byrðing merkir 'það að byrða'.

Mér finnst þetta mjög fínt orð – eðlileg og gagnsæ orðmyndun en þarf auðvitað að venjast eins og aðrar nýjungar. En í gær var mikil umræða um orðið í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ og þar var því fundið ýmislegt til foráttu. Sú umræða var mjög lærdómsrík vegna þess að hún sýnir í hnotskurn hvernig margt fólk er pikkfast í sinni málfarsbúblu og finnst allar nýjungar af hinu illa. Rökin sem voru færð gegn þessu orði voru af ýmsum toga, einkum eftirfarandi:

  • Orðið merkir annað.

Það er vissulega rétt að byrðing hefur líka merkinguna 'klæða skipshlið (með borðum)'. En ástæðan fyrir því að byrðing hefur fleiri en eina merkingu er sú að orðið sem það er leitt af, borð, hefur fleiri en eina merkingu. Það væri fráleitt að segja að það megi mynda orð með -ing af einni merkingu orðsins borð en ekki annarri.

  • Orðið er hrá þýðing eða eftiröpun úr ensku.

Vissulega minnir byrðing á boarding. En það er vegna þess að íslenska og enska eru skyld mál. Orðin borð í íslensku og board í ensku eiga sér sameiginlegan uppruna og hafa að hluta til sömu merkingu, þ. á m. í þessu tilviki. Enginn gerir athugasemdir við að sagt sé um borð í vélina þótt það heiti on board á ensku.

  • Orðið er óþarft – það má nota samband með sögn í staðinn.

Það er vissulega oft hægt, en í sumum tilvikum getur verið gagnlegt að hafa nafnorð í þessari merkingu, svo sem þegar auglýst er „Í starfinu felst m.a. innritun, byrðing og ýmis þjónusta við farþega“. Það er líka gott að hafa nafnorð til að þýða boarding completed og geta sagt byrðingu lokið.

  • Orðið útrýmir íslenskum samböndum eins og gangið um borð.

Engin ástæða er til að ætla að svo verði og t.d. verði farið að segja flugvélin er í byrðingu í staðinn. Þar sem hefð er fyrir íslenskum orðasamböndum er sjálfsagt að halda þeim. Orðið byrðing getur hins vegar gagnast vel til að komast hjá margyrtum og klúðurslegum orðasamböndum.

  • Orðið er ljótt – orðskrípi.

Orðið byrðing er flestum framandi í þessari merkingu og það er alkunna að það tekur tíma að venjast nýjum orðum. En það er erfitt að sjá á hvaða forsendum ætti að kalla það „orðskrípi“ í ljósi þess að það er myndað í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur, og löng hefð er fyrir því að tala um byrðingu (og byrðing) skips.