Ímyndarvandi íslenskunnar

Í nýlegri ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2021 er sagt að íslenskan eigi við ákveðinn ímyndarvanda að etja. Óhætt er að taka undir það – stærsta verkefni okkar sem málsamfélags um þessar mundir er að skapa jákvæða ímynd af íslenskunni í huga málnotenda. Það verður ekki gert með leiðréttingum og athugasemdum við það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt. En það verður ekki heldur gert með því að amast við eða berjast gegn nýjungum í máli sem sumar hverjar stefna að því að tungumálið komi betur til móts við málnotendur.

Aðalatriðið er nefnilega að fólki þyki vænt um málið sitt, finnist það taka utan um sig, finnist það eiga þar heima. Ef fólki finnst íslenskan jaðarsetja sig eða útiloka á einhvern hátt, finnst að íslenskan geri ekki ráð fyrir því eða geri því ekki kleift að tala um sig sjálft og annað fólk á þann hátt sem það kýs, þá er ekki við því að búast að því þyki vænt um tungumálið eða telji þess vert að rækta það. Okkur kann að sýnast þessi tilfinning misskilningur, og reynum stundum að sannfæra fólk um að þetta sé ekkert svona og ef það sé svona þá sé a.m.k. ekkert við því að gera.

Slík viðbrögð eru skiljanleg og eðlileg og oft sprottin af því að fólk vill vernda íslenska málhefð og varðveita sögulegt samhengi málsins. Það er sannarlega göfugt markmið. En rök af því tagi breyta ekki tilfinningu fólks, og ef andstaða við breytingar leiðir til þess að fólk missir trúna á íslenskuna, finnst sér úthýst úr henni, þá snýst þessi góði tilgangur upp í andhverfu sína. Tilfinning fólks getur nefnilega ekki verið röng – af því að hún er tilfinning. Fólk vill nota íslenskuna, en það vill jafnframt vera hluti af henni og eiga hlut í henni. Ef því er neitað um það er hætt við að það hrekist frá henni.

Þess vegna eru mikil vonbrigði að sjá að þrátt fyrir að Íslensk málnefnd geri sér grein fyrir ímyndarvanda málsins skuli hún ekki nota þau tækifæri sem hún fékk upp í hendurnar á þessu ári – annars vegar með því að vera falið að taka saman skýrslu um kynhlutlaust mál og hins vegar með því að endurskoða íslenska málstefnu – til að taka vel á þessum málum, móta skýra stefnu um það hvernig íslenskan geti komið til móts við alla málnotendur og þær hræringar sem eru í gangi í málsamfélaginu, um leið og íslenskri málhefð og sögulegu samhengi málsins sé sýndur fullur sómi.

Það á nefnilega ekki að þurfa að velja milli málsins og málnotenda. Það verður að vera hægt að leysa málin þannig að bæði íslenskan og notendur hennar standi uppi sem sigurvegarar. Við þurfum að leita slíkra lausna – og finna þær. Það væri stórt skref í þá átt að leysa ímyndarvanda íslenskunnar.