Bubbi og íslenskan
Ég fór á Níu líf í Borgarleikhúsinu í gær. Þar var minnst á að ýmsir sjálfskipaðir verndarar íslenskunnar gagnrýndu texta Bubba harðlega í upphafi fyrir hvers kyns „málvillur“ og bragfræðilega hnökra. Eins og kom fram í sýningunni var meira að segja haldinn fundur í Háskólanum um svokallaða „gúanótexta“ Bubba, Tolla bróður hans og fleiri. Þótt ég væri í Háskólanum á þessum tíma var ég ekki á þessum fundi í nóvember 1980, en rámaði í hann og fann frásagnir af honum í blöðum.
Sem betur fer lét Bubbi þessa gagnrýni ekki brjóta sig niður — flýði ekki yfir í enskuna sem hefði sjálfsagt verið auðveldast, heldur hélt áfram að yrkja á íslensku. Það hefur hann gert alla tíð og þannig verið ungu tónlistarfólki mikilvæg fyrirmynd. Bubbi hefur líka alltaf talað máli íslenskunnar og ég lít á hann sem mikinn velgjörðarmann málsins. Í blaðaviðtali í fyrra sagði hann:
„Það kemur í ljós að í þjóðfélagi okkar eru þúsundir haldnir málótta. Í staðinn fyrir að gera íslenskuna skemmtilega þannig að börn hlakki til að fara í íslenskutíma þá er búið til regluverk og svo eru krakkar lamdir niður. Þegar ég spyr unga krakka í tónlistinni: Hvers vegna syngið þið ekki á íslensku krakkar? þá segja þau: Nei, ef maður gerir það er maður bara tekinn niður.“
Þetta má ekki gerast. Við eigum að ýta undir að íslenska sé notuð alltaf og alls staðar, jafnvel þótt það sé ekki nákvæmlega sama íslenska og við ólumst upp við eða okkur var kennt að væri rétt. Íslenska er alls konar. Það er sjálfsagt að leiðbeina ungu fólki þar sem við á, en sífelld gagnrýni og leiðréttingar hrekur það í fang enskunnar. Ég tek heilshugar undir með Silju Aðalsteinsdóttur sem endaði framsöguræðu sína á framangreindum fundi haustið 1980 á þessum orðum:
„Það hryllilegasta sem getur komið fyrir íslenska tungu er ekki að á hana séu ort misjöfn kvæði samkvæmt reglum bókmenntastofnunar. Fyrrum voru ort þúsund danskvæði á íslensku, þar af er kannski eitt óskorað listaverk. Það hafa verið ortar tíuþúsund rímur á íslensku til þess að nokkrar gætu orðið til sem bæru af. Það hafa verið ortir hundraðþúsund sálmar á íslensku, af þeim eru fimmtíu sem lifa meðan tungan er töluð.
Nei, það hryllilegasta sem komið getur fyrir íslenska tungu er ekki að á hana sé ýmislegt ort heldur hitt að fólk hætti að nota hana til að koma reynslu sinni á framfæri við náunga sinn. Frjáls tjáning allra þegnanna er undirstaða listsköpunar í landinu.“