Um sótt og dauða íslenskunnar

Nýbakaður verðlaunahafi Jónasar Hallgrímssonar, Arnaldur Indriðason, var spurður um stöðu íslenskrar tungu í Menningunni í Sjónvarpinu í gær. Hann sagði að það hefði heyrst að hún myndi lognast út af á hundrað árum, en hafði sem betur fer ekki trú á því. Þetta er spádómur sem oft er vitnað í og ég hef stundum séð rakinn til mín.

Það er alveg rétt að ég nefndi þetta í Orðbragði árið 2013 en þá verður að hafa í huga að þetta var sagt í umræðu um stöðu málsins í stafrænum heimi. Ég sagði: „Og það er alveg ljóst að við munum aldrei geta komið okkur upp öllum þessum gagnasöfnum eða þeim hugbúnaði sem er til fyrir stóru tungumálin. En ég held að ef við gerum ekki eitthvert átak, eða að minnsta kosti reynum ekki að ná í skottið á þróuninni þá sé ansi mikil hætta á að íslenska verði ekki til eftir 100 ár.“

Á þessum tíma var ekkert að gerast í íslenskri máltækni og full ástæða til svartsýni á þessu sviði. En að lokum tóku stjórnvöld við sér og nú er allt á fullu eins og kemur vel fram hér. Þar að auki hefur umræða um íslenskuna aukist mikið og orðið jákvæðari – enda er það frumforsenda fyrir því að málið lifi.

Við fáum ekki ungu kynslóðina með okkur nema tveimur skilyrðum sé fullnægt. Við þurfum að gera henni kleift að nota íslensku á þeim sviðum og um þau efni sem hún hefur áhuga á, og við þurfum að leyfa henni að nota málið eins og hún vill, í stað þess að vera alltaf að gagnrýna málnotkun hennar og ætlast til þess að hún noti það á sama hátt og við þessi eldri.

Ef stjórnvöld halda áfram að styðja þróun á sviði máltækni, ef íslenskan fær að þróast í takt við samfélagið, og ef við hlúum að henni og notum hana á öllum sviðum er engin ástæða til að ætla annað en hún geti lifað í hundrað ár í viðbót – og miklu lengur. En það gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hafa metnað fyrir hennar hönd og sérstaklega sjá til þess að börnin okkar geti notað hana og vilji gera það.