Fögnum nýjungum
Mér finnst að við eigum að fagna nýjungum í máli, svona yfirleitt. Þær endurnýja málið og auðga það iðulega, andstætt því sem oft er haldið fram, þótt frá því séu vissulega undantekningar eins og nefnt er hér á eftir. Stundum kemur nýtt orð, nýr framburður, ný beyging eða ný setningagerð algerlega í stað þess sem áður var – þá er málið í sömu stöðu og áður, hvorki fjölskrúðugra né fáskrúðugra. En hitt er líka algengt að nýjungin sé viðbót en eldra málbrigði lifi áfram góðu lífi. Þá hefur málið auðgast – sem hlýtur að vera jákvætt. Tökum nokkur dæmi.
Ný orð um ný fyrirbæri eru augljóslega nauðsynleg og auðga málið. Oft er því þó haldið fram að tiltekin ný orð séu „óþörf“, og jafnvel „orðskrípi“, t.d. ristavél, og sagt að eitthvert orð sé að „útrýma“ öðru. Þannig hef ég oft séð því haldið fram að snjóstormur sé að útrýma byl, stórhríð og fleiri orðum, púðursnjór að útrýma lausamjöll, snjófjúk að útrýma skafrenningi, svo að aðeins séu nefnd orð um snjó. En tíðnitölur úr textum sýna að þetta er fjarri sanni – eldri orðin lifa góðu lífi. Þarna hafa bæst við ný orð sem strangt tekið eru „óþörf“ – en þau auðga málið. Það má vel vera að sumum þyki þau síðri en þau sem fyrir voru, en þarna fær fólk val. En jafnvel þótt nýju orðin kæmu algerlega í stað þeirra gömlu rýrir það ekki orðaforðann.
Á undanförnum áratugum hefur framburður orða sem skrifuð eru með gs, ks og x verið að breytast – í stað þess að orð eins og kex og hugsa séu borin fram með önghljóði (eins og í t.d. ekta) á undan s er borið fram lokhljóð (eins og í t.d. vagga). Þetta er breyting sem við tökum lítið eftir, truflar okkur ekkert og skaðar málið ekki – eitt hljóð kemur í stað annars en engin orð falla saman. En á sínum tíma var barist mjög harkalega gegn svonefndu „flámæli“, ekki síst með þeim rökum að það myndi valda víðtæku samfalli orða. Þannig yrði ekki lengur gerður munur á veður og viður, sker og skyr, grön og grun. En í fyrsta lagi er hreint ekki víst að þessi orð hefðu fallið saman – vel má vera að „flámælt“ fólk hafi heyrt mun á þeim þótt þau hljómuðu eins í eyrum annarra. Í öðru lagi er það samfall orða sem þarna hefði orðið mun minna en það sem varð með samfalli i og y, í og ý á sínum tíma – og við komumst ágætlega af með það.
Ósjaldan eru gerðar athugasemdir við breytta beygingu orða – að Haraldar sé komið í stað Haralds, áratugs í stað áratugar, til Selfossar í stað til Selfoss, vegna byggingu í stað vegna byggingar, réði í stað réð, ollað í stað valdið, sjálfs síns í stað sjálfs sín, senti í stað þátíðarinnar sendi, og svo mætti lengi telja. En málið verður ekki fátæklegra eða verra þótt ein beygingarending leysi aðra af hólmi. Hliðstæðar breytingar eru fjölmargar í málsögunni og margar hverjar fullkomlega viðurkenndar. Þær trufla okkur ekkert því að þær urðu fyrir okkar minni, og við vitum oftast ekki af þeim. Öðru máli gegnir ef heill beygingarflokkur eða beygingarmynstur hyrfi eins og gerðist þegar köttur, fjörður og hliðstæð orð fengu ketti, firði í þolfalli fleirtölu í stað köttu, fjörðu. En ekkert slíkt er að gerast nú.
Sama máli gegnir með setningafræðilegar breytingar. Það skaðar málið ekki nokkurn skapaðan hlut þótt einhverjar sagnir breyti um frumlagsfall og mig langar verði mér langar, ég hlakka verði mér hlakkar o.s.frv. Tilbrigði í fallstjórn sagna og forsetninga skaða ekki heldur, t.d. rústa herbergið eða rústa herberginu, skeina mig eða skeina mér, spá í þetta eða spá í þessu. Aftur á móti má færa rök að því að ýmsar setningafræðilegar nýjungar auðgi málið. Sambandið gæti hafa kom fram á 18. öld en hefur ekki útrýmt hefði getað enda merkingin ekki sú sama. Nýleg sambönd með vera að eins og ég er ekki að skilja þetta útrýma ekki ég skil þetta ekki enda merkingin aðeins önnur. Meira að segja nýja þolmyndin svokallaða, það var barið mig, er notuð á svolítið annan hátt en sú hefðbundna og því ættu þær að geta lifað samhliða í málinu.
Það er í sjálfu sér eðlilegt að nýjungar trufli okkur, fari í taugarnar á okkur og við eigum erfitt með að fella okkur við þær. Við viljum hafa málið eins og það var – eða okkur var kennt að það ætti að vera – þegar við vorum að alast upp. En við þurfum samt að sýna nýjungum umburðarlyndi. Fólkið sem notar þær á alveg jafn mikinn rétt á tungumálinu og við. Og frá sjónarmiði tungumálsins eru
nýjungar yfirleitt jákvæðar – bera vott um að málið er lifandi og skapandi og auðga það yfirleitt frekar en hitt, eins og áður segir.
Undantekningar frá því eru örfáar. Ein er sú sem ég hef oft heyrt amast við, að nota sambandið notast við í stað þess að segja einfaldlega nota. En notast við merkir í mínu máli og margra annarra ekki bara 'nota', heldur 'nota vegna þess að ekki er völ á neinu betra'. Það er óeðlilegt í mínu máli að segja t.d. ég notaðist við tölvu til að skrifa ritgerðina. Hins vegar væri eðlilegt að segja ég notaðist við lélega tölvu til að skrifa ritgerðina, eða ég notaðist við blýant til að skrifa ritgerðina. Höldum áfram að gera þennan greinarmun á nota og notast við – annars verður málið fátæklegra.