Nýjungar í orðfæri um bækur og lestur
Iðulega hafa tæknibreytingar og þjóðfélagsbreytingar áhrif á orðfæri okkar um hversdagslegar athafnir og hluti. Stundum leiða þær til þess að orð hverfa úr málinu vegna þess að fyrirbærið sem þau vísuðu til verður úrelt án þess að nokkuð komi beinlínis í staðinn. Þannig eru t.d. orð sem tengjast fráfærum og hjásetu horfin úr málinu í þeim skilningi að þau eru ekki lengur í virkri notkun þótt þau varðveitist vitaskuld á bókum. Í öðrum tilvikum, t.d. þegar ný tækni leysir eldri tækni af hólmi, geta orð úr eldri tækni haldist þótt tengslin við upprunann rofni. Þannig er t.d. með sögnina elda sem er leidd af nafnorðinu eldur enda var matur áður soðinn eða steiktur yfir opnum eldi. En nú hefur merking sagnarinnar víkkað og hún merkir 'búa til mat' án þess að eldur þurfi nokkuð að koma þar við sögu.
Annað dæmi má taka af nafnorðinu sími sem í fornu máli merkti 'þráður' en var tekið upp skömmu fyrir 1900 í merkingunni 'telefón' enda voru loftlínurnar, þræðirnir, þá helstu einkenni símans. Þegar þráðlausir símar komu til sögunnar voru þeir áfram kallaðir símar þótt tengslin við upprunann væru þar með rofin. En til að greina nýju tæknina frá þeirri eldri var upphaflega talað um farsíma, gsm-síma eða gemsa. Svo komu snjallsímar til sögunnar og nú eru þeir orðnir normið, þannig að sími merkir oftast 'snjallsími'. „Gamaldags“ símar sem eru tengdir við línu eru á útleið en ef þörf krefur er hægt að tala um þá sem fastlínusíma, borðsíma eða eitthvað slíkt. En þeir hafa misst stöðu sína sem sjálfgefið merkingarmið orðsins sími.
En hvað á að gera þegar ný tækni breiðist út en sú eldri er samt enn í fullu gildi? Þetta kemur upp í tengslum við bækur og lestur. Til skamms tíma mátti skilgreina bók sem 'samanheft blöð (með kápu eða spjöld utan um), auð, skrifuð eða prentuð, ætluð til að skrifa (teikna) eða lesa í' eins og segir í Íslenskri orðabók. En þessi skilgreining er úrelt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er því bætt við að bók geti verið 'á rafrænu formi' til að ná utan um rafbækur en það dugir ekki heldur, því að nú eru hljóðbækur orðnar mjög útbreiddar. Þessi orð, hljóðbók og rafbók, eru í sjálfu sér mjög lipur og enginn vandi að nota þau. Vandinn skapast þegar þarf að tala um „hefðbundnar“ bækur og greina þær frá hljóðbókum og rafbókum – hvað á að kalla þær?
Ég hef séð ýmis orð notuð í þessu skyni, t.d. pappírsbækur, prentbækur og físískar bækur. Bæði pappírsbók og prentbók eru gömul orð, upphaflega notuð til annarrar aðgreiningar. Orðið pappírsbók er a.m.k. frá 17. öld og var notað til að greina bækur sem voru skrifaðar eða prentaðar á pappír frá skinnhandritum. Orðið prentbók er a.m.k. frá 19. öld og var notað til að greina prentaðar bækur frá handskrifuðum bókum. Mér finnst prentbók heppilegasta orðið til aðgreiningar frá rafbók og hljóðbók – það er stutt og lipurt, tvö atkvæði eins og hin. Eftir sem áður er auðvitað sjálfsagt að nota bara bók þar sem aðgreiningar er ekki þörf – og sjálfgefin merking orðsins er enn sem komið er 'prentbók' þótt það kunni að breytast í náinni framtíð, eins og gerst hefur með orðið sími.
En ekki eru öll vandamál þar með leyst. Hvaða orð eigum við að nota um „neyslu“ hljóðbóka? Get ég sagt ég var að lesa Sextíu kíló af kjaftshöggum ef ég hlustaði á hljóðbókina? Í Íslenskri orðabók er merking sagnarinnar lesa sögð vera 'ráða úr leturtáknum (þannig að úr verði samfellt mál, orð og setningar)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skilgreiningin 'greina orð úr bókstöfum; ráða í texta eða tákn'. Séu þessar skilgreiningar teknar bókstaflega er ljóst að sögnin lesa nær ekki yfir það að hlusta á hljóðbók. En vitanlega er sá kostur fyrir hendi að láta sögnina elta tæknina, ef svo má segja, eins og sögnin elda gerði – segja að lesa merki 'beita sjón eða heyrn til að skynja undirbúinn texta' eða hvernig sem ætti að orða skilgreininguna.
En það getur líka þurft að greina á milli þess að nota prentbækur og hljóðbækur. E.t.v. er best að halda sig við sögnina hlusta um hljóðbækur en það er þó ekki alltaf einfalt. Nýlega heyrði ég sagt: „Þriðja hver bók sem er lesin á Íslandi er hlustuð.“ Þetta er í sjálfu sér auðskilið, en þarna er hlusta notuð á óvanalegan hátt. Í germynd tekur hún með sér forsetninguna á – við hlustum á eitthvað. Íslenska hefur ekki svokallaða „forsetningarþolmynd“ eins og t.d. enska hefur, í setningum eins og he was spoken to. Við getum ekki sagt *hann var talaður við heldur verðum að segja það var talað við hann. Þess vegna mætti búast við það er hlustað á þriðju hverja bók sem er lesin á Íslandi, en það hljómar ekki eðlilega. E.t.v. mætti sleppa forsetningunni með hlusta í þessari merkingu, eins og gert er þegar læknar hlusta sjúklinga, og segja ég hlustaði Sextíu kíló af kjaftshöggum.
Til að tjá það að um hefðbundinn lestur sé að ræða mætti hugsa sér að búa til sögnina sjónlesa – og þá hlustlesa um lestur hljóðbóka og snertilesa um lestur bóka á blindraletri. Ég legg samt áherslu á að ég set þetta fram sem hugmyndir en ekki beinar tillögur. Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að koma með einhverjar töfralausnir enda enginn brýnn vandi á ferðum, heldur benda á dæmi um það hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa áhrif á tungumálið og hvernig þau álitamál sem upp koma í því sambandi leysast – eða hvernig hugsanlegt væri að leysa þau.