Er nálgun tískuorð?

Nafnorðið nálgun lítur út fyrir að vera myndað af sögninni nálga en sú sögn er sárasjaldgæf í germynd þótt miðmyndin nálgast sé algeng. Það er óvanalegt að -un-orð tengist miðmynd en ekki germynd en þó ekki einsdæmi – við höfum orð eins og afvopnun sem oftast merkir 'afvopnast' frekar en 'afvopna', blygðun sem tengist blygðast (germyndin blygða er löngu úrelt), sturlun sem tengist sturlast (germyndin sturla er ekki notuð í nútímamáli), og svo nýyrðið skólaforðun sem tengist forðast en ekki forða. Elsta þekkt dæmi um nálgun er frá 1823, en framan af var orðið mjög sjaldgæft – fram til 1950 eru aðeins 16 dæmi um það á tímarit.is og það er ekki að finna í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Oftast er merkingin sú að 'færast nær' í tíma eða rúmi, en einnig í skoðunum eða viðhorfum.

Fram til 1977 bætast svo við um 70 dæmi, mörg af sama toga en einnig er þar fjöldi dæma um orðið sem íðorð í verkfræði og stærðfræði, í merkingunni 'námundun' (approximation). En seint á áttunda áratugnum fer ný merking orðsins að birtast. Í Þjóðviljanum 1977 segir „Tveir stórsigrar, tvær ólíkar nálganir lausnar vandamálsins.“ Í Norðurlandi 1978 segir: „En þessi nálgun er hentug til að leysa aðsteðjandi vandamál kerfisins á forsendum þess sjálfs.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Til þess að svara þeirri spurningu, hvort tiltekin fjárfesting sé arðbær, þarf þannig aðra nálgun.“ Í Morgunblaðinu 1979 segir: „Jónas Bjarnason sagði í samtali við Morgunblaðið, að þessi starfsaðferð væri ný nálgun, öðruvísi nálgun að þessum málum en verið hefur.“

Þarna er merkingin ekki bókstaflega 'það að nálgast', heldur fremur 'álit, sjónarmið' eða 'aðferð, aðferðafræði'. Þetta verður sérstaklega skýrt þegar farið er að tala um nýja nálgun og öðruvísi nálgun eins og í síðasta dæminu. Vorið 1982 skrifaði Óskar Guðmundsson grein sem heitir „Kvennaframboðið – Tilraun til „nálgunar“ í Þjóðviljann. Þar segir m.a.: „Með aðstoð tímans og vatnsins vonast ég til að það sem á nútíma máli er kallað nálgun lukkist að einhverju marki.“ Þetta orðalag, sem og gæsalappirnar í titli greinarinnar, sýna að þessi notkun orðsins hefur verið ný, en þó farin að breiðast nokkuð út. Sú útbreiðsla hélt áfram næstu árin og tók stökk á miðjum tíunda áratugnum og síðan þá hefur verið nokkuð jöfn og stöðug aukning í notkun orðsins – árið 2013 voru dæmin t.d. rúmlega 11 sinnum fleiri en 20 árum áður, 1993.

Það er auðvitað ekkert að því að nota nálgun í þessari merkingu. Jafnvel kringum 1980, þegar fyrst fer að bera á henni, hefði varla verið ástæða til að gera athugasemd við hana vegna þess að hún er svo nálægt eldri merkingu. En þó svo væri ekki myndi 40 ára saga og mikil tíðni þessarar notkunar duga til þess að afla henni viðurkenningar. Hún er líka komin inn í orðabækur – í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'það að nálgast, kynnast, greina' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'það að nálgast eitthvað, aðferð til lausnar'. Mér fyndist reyndar eðlilegt að brjóta þessar skýringar upp og segja að 'greina' og 'aðferð til lausnar' sé sérstök merking, dálítið annað en 'það að nálgast eitthvað'.

Hins vegar má vel halda því fram að þegar tíðni orðs af þessu tagi, sem ekki vísar til neinnar nýjungar, eykst hundrað og fertugfalt á 40 árum (úr 64 dæmum 1970-1979 upp í 8925 dæmi 2010-2019 á tímarit.is) megi alveg huga að því hvort ekki sé ástæða til að nota stundum annað orðalag.