Að blasa við

Í Íslenskri orðabók er sögnin blasa skýrð 'sjást vel, liggja opinn og öndverður fyrir e-m'. Í Íslenskri nútímamálsorðabókeru gefin fjögur merkingartilbrigði sambandsins blasa við sem öll eru þó náskyld – sjást vel, vera beint fyrir framan eða fram undan. Aðalatriði í þessu er að sögnin merkir ekki bara 'sjást' heldur 'sjást vel', og annaðhvort blasir eitthvað við eða ekki. Þessar merkingarskýringar gefa sem sé ekki ástæðu til að ætla að eitthvað geti blasað við á mismunandi hátt. Ef sögnin er notuð í spurningum mætti því búast við að það væru /nei-spurningar (blasir þetta við þér?) en ekki spurningar með spurnarorði (hvernig blasir þetta við þér?).

Spurningar með hvernig eru samt algengar á seinustu áratugum. Elsta dæmið sem ég hef fundið er í Neytendablaðinu 1978: „Hvernig blasir neyzlusamfélagið við börnunum?“ Upp úr þessu sjást svo fleiri dæmi, t.d. í Helgarpóstinum 1980: „Hvernig blasir hún við manni, sem er bæði hluti af kerfinu og skriffinnskunni, og stendur utan þess?“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „En hvernig blasir þá nútíðin við út um þennan glugga minn sem ég talaði um?“ Í Ægi 1994 segir: „Hvernig blasir kvótaárið við þér?“ Í Fréttablaðinu 2009 segir: „hvernig blasir staða geðheilbrigðismála við henni í dag?“ Í Breiðholtsblaðinu 2016 segir: „Hvernig blasir Leiknir við þér sem félag?“ Svo mætti lengi telja.

En þetta kemur ekki bara fram í spurningum. Í Þjóðviljanum 1968 segir: „myndin af efnahagsástandinu getur hæglega verið slík, eða blasað þannig við mér […] að ég teldi gengisfellingu hreinlegustu og drengilegustu leiðina.“ DV 1999 segir: „Skyldi borgin í dag blasa þannig við stúlkunni sem kemur suður?“ Í 24 stundum 2007 segir: „Þetta blasir þannig við mér að þarna er um að ræða mjög veika einstaklinga sem þurfa stöðuga vöktun.“ Í þessum dæmum, eins og í spurningunum á undan, er blasa við notað í sömu merkingu og horfa við. Sú merking hefur verið að breiðast út frá því um 1980, þótt hefðbundna merkingin sé enn í fullu gildi og sennilega mun algengari.

Þótt forsetningin við sé langalgengust með blasa eru dæmi um aðrar, eins og fyrir. Í Lanztíðindum 1851 segir: „Það blasir fyrir hugskotssjónum manna, hversu áríðandi er að fá eindreigin vilja þjóðarinnar“. Í Ingólfi 1853 segir: „enda veiztu líka örnefnin á öllu hinu helzta, sem víðsýni vort Reykvíkinga lætur blasa fyrir oss.“ Þetta er nú að mestu horfið en fáein dæmi má þó finna frá síðustu áratugum. Í Morgunblaðinu 1991 segir: „Kommúnistinn viðurkenndi ástandið eins og það blasir fyrir öllum í dag.“ Í Munin 2007 segir: „Útsýnið þegar maður er svona nálægt toppnum er talsvert annað en það sem blasti fyrir manni þegar maður lagði í brekkuna í fyrsta bekk.“

Sambandi blasa fyrir virðist merkja það sama og blasa við – hvort tveggja er notað um fólk (blasir við/fyrir mér). En öðru máli gegnir um blasa mót(i). Það merkir 'snúa móti' og er sjaldnast notað um fólk. Í Fjölni 1835 segir: „Nýa strætið […] mátti verða fallegt stræti, því konúngsgarðurinn blasti rétt á móti því.“ Í Lögréttu 2008 segir: „Staðurinn, þar sem skriðan fjell, blasir móti norðaustanvindunum.“ Í Framtíðinni 1930 segir: „Eyðimörk tilverunnar blasti móti honum eins og að vanda.“ Þetta er einnig að mestu horfið en virðist hafa verið sérstaklega algengt í skáldskap. Ekki er langt síðan dægurlag með línunum „Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól“ var á allra vörum (e.t.v. á þarna fremur að vera brosir).