Lagðir bílar

Á Facebook-síðu DV var nýlega eftirfarandi færsla: „„Þessi bíll var lika lagður beint fyrir utan gluggan minn í þrjá daga í vetur, hann var alltaf að vinka mér og vera óviðeigandi,“ segir kona sem gekk á manninn í samtali við DV.“ Í færslunni var hlekkjað á frétt í blaðinu á vefnum, þar sem var næstum orðrétt sami texti en með einni mikilvægri undantekningu: „„Þessum bíl var lagt beint fyrir utan gluggann minn í þrjá daga í vetur. Ökumaðurinn var alltaf að vinka mér og vera óviðeigandi,“ segir konan í samtali við DV.“ Í Facebook-færslunni var sem sé bíll var lagður en í fréttinni sjálfri bíl var lagt. En nefnifallið í Facebook-færslunni er ekki einsdæmi. Vorið 2018 mátti sjá á vef Ríkisútvarpsins fyrirsögn sem vakti talsverða hneykslun á samfélagsmiðlum: „Illa lagðir bílar töfðu slökkvilið í útkalli“. En rætur þessa orðalags ná samt mun lengra aftur.

Elsta dæmi sem ég hef fundi er í Sunnudagsblaðinu 1966: „Maðurinn, sem í fyrsta sinn á lífsleiðinni hafði verið gripinn fyrir ólöglega lagðan bíl, var naumast búinn að leggja frá sér heyrnartólið.“ Þetta er úr þýddri smásögu og gætu verið áhrif frá frumtexta. En næsta dæmi er úr Dagblaðinu 1977: „Við höfum verið með herferð gegn ólöglega lögðum bílum í um það bil fimm mánuði.“ Í Tímanum 1978 segir: „Lögregluþjónar hafa staðið fyrir framan bíóið seinustu þrjár vikur og reynt með litlum árangri að stugga við ólöglega lögðum bílum.“ Í Bæjarins besta 1992 segir: „Erfiðlega gengur stundum að moka götuna vegna illa lagðra bíla.“ Í DV 1999 segir: „Hvað ef slökkviliðið hefði ekki komist fram hjá illa lögðum bílunum?“ Í Morgunblaðinu 2014 segir: „Óviðunandi sé að stöðuverðir þurfi að ganga fram hjá ólöglega lögðum ökutækjum.“ Mun fleiri dæmi frá síðustu 40 árum mætti nefna.

Nú stjórnar sögnin leggja alltaf þágufalli í þessu samhengi þótt hún stjórni þolfalli í samböndum eins og leggja veg, leggja net o.fl. Í þolmynd verður þolfallsandlag að nefnifallsfrumlagi og því er sagt netin voru lögð, vegurinn var lagður o.s.frv. Þágufallsandlag heldur hins vegar falli sínu í þolmynd þótt það sé gert að frumlagi og því mætti búast við bílnum var lagt en ekki bíllinn var lagður. Málið er samt ekki alveg svona einfalt. Með sumum sögnum sem stjórna þágufalli í germynd má finna dæmi um bæði nefnifalls- og þágufallsfrumlag í því sem lítur út fyrir að vera þolmynd. Við segjum ég lokaði húsinu en bæði húsinu var lokað og húsið var lokað – hvort tveggja er gott og gilt. Munurinn er sá að húsinu var lokað er þolmynd, lýsir athöfn – húsinu var lokað kl. 10. En húsið var lokað lýsir ástandi – húsið var lokað þegar ég kom að því.

Í dæmum eins og húsið var lokað hefur því lýsingarhátturinn lokað orðið að lýsingarorði og setningin er germynd, ekki þolmynd. Sama mynstur má finna hjá fleiri sögnum, t.d. bjóða. Oft hefur verið amast við nefnifalli í setningum eins og ég var boðinn í mat og sagt að þar eigi að vera mér var boðið í mat. En þegar að er gáð kemur í ljós að þessar setningar merkja ekki alveg það sama – sú fyrri lýsir ástandi, sú síðari athöfn. Þegar litið er á fréttina í DV sem vísað var til í upphafi er alveg ljóst að verið er að lýsa ástandi – bíllinn hafði staðið fyrir utan gluggann hjá konunni í þrjá daga. Sama máli gegnir um önnur dæmi sem nefnd eru hér að ofan – það verður ekki betur séð en þar sé alltaf vísað til ástands fremur en athafnar. Það lítur því út fyrir að sögnin leggja sé að þróast í átt til sagna eins og loka, bjóða o.fl. þannig að bæði sé – eða verði – hægt að segja bílnum var lagt og bíllinn var lagður. Fleiri sagnir gætu verið á sömu leið.

Við mat á þessari nýju formgerð finnst mér skipta máli að hún er orðin meira en 40 ára gömul í málinu; hún á sér skýrar hliðstæður í hegðun annarra sagna; hún hefur ákveðið hlutverk, aðgreint frá hlutverki eldri formgerðar; og hún kemur ekki í stað eldri formgerðar nema að hluta. Og er þetta þá bara allt í lagi? spyrjið þið kannski. Ágætur málvöndunarmaður sagði einu sinni: „Málvillur er langoftast auðvelt að skilja og skýra, en þær batna lítið við það. Þær halda áfram að vera villur, þótt auðskildar séu eins og önnur mannleg mistök.“ Ég er að vísu ósammála því að „villur“ sem hafa lengi viðgengist og eru útbreiddar haldi áfram að vera „villur“, en þið getið auðvitað haft aðra skoðun á því. Ég er hins vegar sannfærður um að jafnvel þótt við viljum halda áfram að tala um „villur“ er mikilvægt fyrir okkur að skilja hvað er á ferðum – hvers vegna tiltekin breyting kemur upp. Þekking og skilningur er alltaf til bóta.