Opnar og ókeypis orðabækur

Undanfarna daga hefur talsverð umræða verið í fjölmiðlum um skort á opnum og ókeypis orðabókum á netinu. Ég skal síst gera lítið úr þeim skorti en vil samt minna á að á undanförnum 10-15 árum hefur orðið gerbylting í opnum aðgangi að mállegum gögnum. Nú er ókeypis aðgangur að íslenskri nútímamálsorðabók og ýmsum orðabókum milli íslensku og erlendra mála, þ. á m. allra Norðurlandamálanna og frönsku. Hægt er að leita í öllum þessum bókum í einu á Málið.is og þar eru einnig ýmis fleiri gögn, svo sem Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Íslensk stafsetningarorðabók, Íslenskt orðanet og Íslensk orðsifjabók. Í tengslum við máltækniverkefni stjórnvalda hafa einnig orðið til gífurlega mikil og fjölbreytt málleg gögn sem eru aðgengileg í varðveislusafni CLARIN á Íslandi.

Það er hins vegar hárrétt að mikilvægustu orðabækurnar vantar – milli íslensku og ensku. Það er samt ekki þannig að ekkert sé til. Orð úr ýmsum fræðigreinum og iðngreinum má finna í Íðorðabankanum, og Hugtakasafn þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins hefur að geyma mikinn og fjölbreyttan orðaforða. En okkur vantar sárlega almennar orðabækur og þess vegna er sérstök ástæða til að fagna framtaki Sveinbjörns Þórðarsonar við að gera endurbætta útgáfu af ensk-íslenskri orðabók Geirs Zoëga aðgengilega, sem og framtaki Sigurðar Hermannssonar að búa til nýja ensk-íslenska orðabók með hjálp lýðvirkjunar. En þessi verk, sem sannarlega eru miklu betri en engin, geta ekki komið í stað viðamikilla nýrra orðabóka sem unnar væru frá grunni af hópi sérfræðinga.

Fyrir hálfu öðru ári skrifaði ég: „Meginforsendan fyrir því að íslenskan eigi sér framtíð er sú að áfram verði unnt að nota hana á öllum sviðum. Til að svo megi vera þurfum við að hafa íslenskan orðaforða á þessum sviðum – og vita af honum. Það er því mjög mikilvægt að setja af stað vinnu við nýja rafræna ensk-íslenskra orðabók sem verði í stöðugri endurnýjun. Þar þurfa notendur að geta gengið að upplýsingum um hvaða orð eru notuð í íslensku til að samsvara tilteknum enskum orðum – hvort sem um er að ræða íslensk nýyrði eða tökuorð. Þessi orðabók þarf að vera öllum opin og ókeypis – og það þarf að byrja á henni strax.“ Þetta er enn í fullu gildi – boltinn er hjá stjórnvöldum.