Hringlótt og kössótt

Lýsingarorðið hringlótt sést stundum og heyrist í seinni tíð. Mörgum finnst það rangt og telja það „orðskrípi“ og „barnamál“. Vissulega er kringlótt venjulega myndin og um hana er fjöldi dæma þegar í fornmáli. En hringlótt er samt a.m.k. 200 ára gömul mynd – elsta (og raunar eina) dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um hana er úr kvæði eftir Bjarna Thorarensen. Orðið er að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924, skýringalaust en með vísun í kringlótt, en elsta dæmi sem ég finn um það á tímarit.is er í Þjóðviljanum 1951: „maður um fimmtugt, stuttur, þrekinn með strítt hár sem stóð fram undan hringlóttum, svörtum flókahatti.“ Aðeins þrjú dæmi bætast við fram til 1980, en þá fjölgar þeim skyndilega og eru hátt á annað hundrað frá síðustu 40 árum. Þetta orð virðist því vera komið inn í málið.

Það leikur varla vafi á því að orðið er einhvers konar samsláttur úr kringlótt og hringlaga. Í sjálfu sér má segja að hringlótt sé gagnsærra en kringlótt – orðið hringur er margfalt algengara en kringla og líkingin augljósari. Hins vegar má spyrja hvaðan l-ið sé komið – það er ekkert l í hringur þótt það sé í kringla. Þess vegna mætti halda því fram að orðið ætti frekar að vera *hringótt. En samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er kringla eiginlega smækkunarorð af kringur sem merkir 'hringur' (sbr. hringinn í kring, allt um kring) og því ætti að mega líta á l-ið í hringlótt á sama hátt. Ég fæ því ekki séð annað en hringlótt sé fullkomlega rétt myndað og eðlilegt orð en alls ekkert „orðskrípi“. Þar með er ekki sagt að það eigi að koma í stað kringlótt – orðin geta alveg lifað hlið við hlið.

Annað skylt orð er kössótt sem merkir 'kantað' eða 'kassalaga'. Þetta orð er miklu nýrra og sjaldgæfara en hringlótt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu árið 2000: „Grafík leiksins er mjög flott, allar hreyfingar eru mjög vel gerðar og þó umhverfi sé allt örlítið kössótt er leikurinn svo stór og fljótur að hlaða sig að auðvelt er að fyrirgefa aðeins minni upplausn.“ Annað dæmi má nefna úr Morgunblaðinu 2015: „hvort sem pítsan var kringlótt eða „kössótt“ fúlsaði afi við henni.“ Í Vísi 2016 segir: „Augun á þeim eru orðin kössótt, þeir eru sjónvarpssjúkir, þeir ganga veginn til glötunar!“ Í Fréttatímanum 2016 segir: „Svo langar mig ekki að hafa skólann hvítan og kössóttan.“ En orðið er sjaldgæft – á tímarit.is eru dæmin ekki nema fimm, og sex til viðbótar í Risamálheildinni.

Lýsingarorð með viðskeytinu -ótt- vísa oftast til útlits og væntanlega er kössótt myndað með hliðsjón af öðrum orðum sem vísa til lögunar, t.d. kringlótt/hringlótt, hornótt, hnöttótt o.fl. Þegar -ótt- er skeytt við orð sem hefur a í stofni er a-inu venjulega skipt út fyrir ö skalli sköllótt, gatgötótt, fjallfjöllótt o.s.frv. Sögulega séð er þetta u-hljóðvarp sem stafar af því að forn mynd viðskeytisins var *uhta- og u-ið dró sérhljóðið í næsta atkvæði á undan í átt til sín. Þessar hljóðfræðilegu aðstæður eru löngu horfnar en viðskeytið hefur samt oftast þessi áhrif enn, líka í orðum sem eru mynduð löngu eftir að hljóðfræðilegar forsendur víxlanna hurfu. Þess vegna er venjuleg mynd þessa orðs kössótt, þótt nokkur dæmi um kassótt megi að vísu finna á netinu. Myndin kössótt sýnir að þessi orðmyndun lifir enn góðu lífi.

Orðið hringlótt er mun gagnsærra en kringlótt, og orðið kössótt finnst mér mun liprara en kassalaga. Þetta eru engin „orðskrípi“ heldur mynduð í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur, að því tilskildu að myndin kössótt sé notuð en ekki kassótt. Það eina sem er að þessum orðum er að við erum ekki vön þeim. Ný orð auðga orðaforðann, og séu þau mynduð samkvæmt íslenskum orðmyndunarreglum er engin ástæða til annars en fagna þeim, þótt ekki sé heldur nein ástæða til að láta þau útrýma orðum sem fyrir eru.