Gisk

Ég sá í Málvöndunarþættinum að verið var að spyrja hvort orðið gisk í staðinn fyrir ágiskun væri rétt íslenska. Þessi spurning hefur komið upp áður. Á vef Eiðs heitins Guðnasonar, „Molar um málfar og miðla“, var árið 2012 vitnað í bréfritara sem sagði: „Í þættinum [...] (Á Rás tvö í Ríkisútvarpinu) segja þau skötuhjú [...] ævinlega þetta var gott gisk. Er það orð yfirleitt til í íslensku. Af hverju nota þau ekki bara ágiskun?“ Eiður sagðist ekki geta svarað „hversvegna þessir eftirlætis ambögusmiðir stjórnenda Ríkisútvarpsins nota ekki orðið ágiskun. Kannski þekkja þau ekki orðið.“

Þetta orð er vissulega ekki að finna í neinum orðabókum en hefur þó töluvert verið notað á undanförnum árum. Elsta dæmi sem ég fann um það er í Víkurfréttum 1993: „Þá er það ekki fleira í þessari viku, kæru tipparar eða giskarar. Góða tipp/gisk-helgi.“ Næsta dæmi er úr DV 2005: „Þarna er fyrst og fremst verið að spyrja um hvað menn spá en ekki hvað menn vilja,“ segir Össur og kallar þessa könnun „gisk“ Fréttablaðsins.“ Þar er gisk innan gæsalappa sem bendir til þess að það hafi ekki verið komið í almenna notkun.

Á næstu árum er svo slæðingur af dæmum. „Já, blint gisk er þá Siggi Sigurjóns“ í DV 2005, „Aldrei hefur reynt á hann svo að það er nokkuð gisk að átta sig á ákvæðum hans“ í Stúdentablaðinu 2006, „Hafnarfirði... þetta er samt algjört gisk“ í DV 2007, „Stig fást fyrir rétt gisk eða þegar einhver giskar á manns eigin skýringu“ í Morgunblaðinu 2009, „Rétt er að taka fram að í engu tilfellinu var um að ræða óskhyggju, aðeins hávísindalegt gisk“ í Morgunblaðinu 2010, „Eins og margir vita er í raun til lítils að spá fyrir um úrslit knattspyrnuleikja og rökstyðja giskið“ í Morgunblaðinu 2011, o.fl. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í 90, flest frá síðustu 5-6 árum.

Það er því enginn vafi á að þetta orð er komið inn í málið og sjálfsagt að bæta því í orðabækur. Þetta er stutt og snaggaralegt orð, miklu liprara en ágiskun. Orðmyndunin er eðlileg – það eru ýmis dæmi um að endingarlaus hvorugkynsorð séu mynduð af nafnhætti sagna með því að fella niður -a. Þótt orðið ágiskun sé til í málinu í þessari merkingu, og hafi verið það frá því fyrir miðja 19. öld, er engin ástæða til að amast við orðinu gisk – það er ekkert að því að eiga val. En vitanlega er ekki heldur nein ástæða til að gleyma ágiskun eða hætta að nota það orð.