Umfaðmandi íslenska

Sem betur fer hefur íslenskt þjóðfélag breyst mjög til batnaðar á undanförnum áratugum. Almenn þekking og skilningur á mannlegu eðli, hegðun og tilfinningum hefur aukist verulega – og jafnframt umburðarlyndi okkar gagnvart fjölbreytileik mannlífsins. Við áttum okkur á því að það er ekki svarthvítt eða í sauðalitunum eins og það var – eða við héldum að það væri – í gamla daga, heldur í öllum regnbogans litum. Meðal þess sem hefur breyst – eða réttara sagt komið upp á yfirborðið – er að fólk hefur margs konar kynhneigð og kynvitund og það eru ekki bara tvö kyn.

Tungumálið okkar, íslenskan, þarf að koma til móts við þessar breytingar. Tungumál sem ekki er í takt við samfélagið sem talar það á sér enga framtíð – og á ekki skilið að eiga sér framtíð. Ef okkur þykir vænt um íslenskuna hljótum við að vilja að hún umfaðmi alla notendur sína og skilji enga útundan. Tungumálið er nefnilega mjög öflugt valdatæki sem er hægt að beita bæði til góðs og ills. Stundum er því beitt til að halda jaðarsettu fólki föstu úti á jaðrinum með því að leyfa því ekki að eiga hlutdeild í tungumálinu, leyfa því ekki að nota þau orð sem það vill sjálft nota um sig og tilfinningar sínar.

Þau sem hafa ráðið yfir tungumálinu virðast hræðast það að missa einhver völd ef jaðarsett fólk fær að nota tungumálið á sínum eigin forsendum. Andstaða við það er oft rekin undir merkjum málverndar og látið eins og þau jaðarsettu vilji ráða því hvernig fólk tali, sagt að verið sé að spilla íslenskunni með því að útrýma góðum og gildum orðum og innleiða „orðskrípi“ í staðinn. Ýmist er því þá haldið fram að engin þörf sé á nýjum orðum eða lögð til „heppilegri“ orð sem ætti að nota í staðinn. Í báðum tilvikum er gert lítið úr upplifun jaðarsettra hópa og talað niður til þeirra.

Það er eðlilegt að fólk í viðkvæmri stöðu vilji nota þetta öfluga tæki, tungumálið, til valdeflingar – vilji fá að meta sjálft hvaða orðum það þarf á að halda og hvernig þau eiga að vera. Það er ekkert verið að krefjast þess að öllum finnist þessi orð frábær eða vilji nota þau – það er ekkert óeðlilegt að finnast ný orð skrítin og jafnvel kjánaleg. Það er hins vegar eðlilegt að ætlast til þess að það sé ekki gert gys að þessum orðum, eða fólkinu sem notar þau, eða gert lítið úr þörfinni fyrir þau. Málvernd án umburðarlyndis er málskemmd. Íslenskan á það ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.