Fyrsti apríl - eða hvað?

Frá og með deginum í dag, föstudeginum 1. apríl, er leyfilegt að segja og skrifa:

  • Það var beðið mig að fara
  • Ég var að versla mér mat
  • Keyptu þetta fyrir mig
  • Þetta er maður sem að ég þekki
  • Þau funda daglega
  • Hann réði ekki við þetta
  • Mikið af fólki kom á fundinn
  • Við hittumst ekki ósjaldan, jafnvel oft í viku
  • Þetta gerðist í lok síðasta áratugs
  • Hann hefur alltaf verið sjálfs síns herra
  • Gerið svo vel að rétta upp hend
  • Viltu dingla fyrir mig?
  • Ég vill ekki gera þetta
  • Svona er þetta á hinum Norðurlöndunum
  • Henni tókst að forða slysi
  • Ég gæti hafa gert þetta
  • Ég ætla að fá blöndu af báðu
  • Verðbólgan sígur upp á við
  • Þannig mönnum er ekki treystandi
  • Ég á von á að tapa þessu
  • Hárið mitt er farið að þynnast
  • Flokkurinn sigraði kosningarnar
  • Tíu smit greindust í gær
  • Markvörður Selfossar stóð sig vel
  • Ég geri mikið af því að lesa
  • Ég kynnti hana fyrir þessari bók
  • Hann er alveg eins og pabbi sinn
  • Mér bar gæfa til að fallast á þetta
  • Ég er að spá í þessu
  • Settu sneiðina í ristavélina
  • Ég var boðinn í mat
  • Opnunartíminn hefur verið lengdur
  • Verslunin opnar klukkan 9
  • Þetta hefur ollið miklum vandræðum
  • Ég þarf að mála hurðarnar
  • Ég er að fara erlendis
  • Ég er votur í fæturnar
  • Gatan er lokuð vegna lagningu malbiks
  • Þeir töluðu illa um hvorn annan
  • Ég opnaði hurðina og lokaði henni aftur
  • Ég sá bæði Kasper og Jesper og Jónatan
  • Ég er að fara eitthvert út í buskann
  • Það er verið að byggja nýjan veg
  • Þau tóku sitthvora bókina
  • Ég fór í kröfugöngu á fyrsta maí
  • Gæði þessarar vöru eru léleg
  • Ég senti bréfið í gær
  • Ég svaf illa í gærnótt
  • Göngum yfir brúnna
  • Mér langar í þessa bók

Eins og væntanlega hefur hvarflað að mörgum er textinn hér að ofan um nýjan málstaðal helber uppspuni og aprílgabb, enda vandlega tekið fram í upphafi að þessi staðall taki gildi 1. apríl. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og svo var einnig um þetta. Þarna eru tilfærðar 50 hversdagslegar setningar sem allar eiga það sameiginlegt að hafa vera taldar vond íslenska eða beinlínis rangt mál, og við þeim er eða hefur verið amast t.d. í Málfarsbankanum og ótal málfarsþáttum og -hópum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Sumar þessara setninga eru vissulega þyrnir í augum margra – annaðhvort af því að þær samrýmast ekki málkennd þeirra eða þeim hefur verið kennt að þær séu rangt mál, nema hvort tveggja sé. En margar setninganna eru hluti af eðlilegu máli verulegs hluta málnotenda, og allar eiga sér áratuga sögu í málinu og eru málvenja stórra hópa. Þar með geta þær ekki talist „rangt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu – „rétt mál er það sem er í samræmi við mál­venju, rangt er það sem brýtur í bága við mál­venju“.

Ég get ómögulega séð að þessar setningar séu nokkur málspjöll. Þarna er oftast um að ræða smávægilegar breytingar á beygingarmyndum, fallstjórn eða merkingu einstakra orða – engar róttækar breytingar á málkerfinu nema þá „nýju þolmyndina“ en hún er viðbót en útrýmir ekki hinni hefðbundnu. Hundruð eða þúsundir sambærilegra breytinga hafa orðið á íslensku á undanförnum öldum án þess að þær hafi valdið rofi í málinu eða gert það ónothæft sem samskiptatæki. Þessar breytingar munu ekki heldur gera það.

Hitt er auðvitað annað mál að við erum flest alin upp við að þessar setningar séu „rangt mál“ og það er ekkert einfalt fyrir okkur að breyta þeirri skoðun – viðurkenna að það sem okkur var innrætt af foreldrum og kennurum, og höfum trúað á, sé ekki heilagur sannleikur. Ég hef sjálfur gengið í gegnum það. En allar þessar breytingar standa yfir og hafa gert það lengi – sumar eru jafnvel að mestu gengnar yfir. Því fyrr sem við hættum að berja hausnum við steininn, því betra – bæði fyrir okkur sjálf og íslenskuna.

Í nýrri bók minni, Alls konar íslenska, eru einmitt þessar 50 setningar teknar fyrir, skoðað hvers vegna hefur verið amast við þeim, sýnt fram á að iðulega er það byggt á misskilningi, og færð rök að því að við ættum að taka þær flestar í sátt sem góða og gilda íslensku. „Fréttin“ um nýjan málstaðal er vissulega aprílgabb – en ég vildi að hún hefði ekki verið það. Ég vildi að við hefðum kjark og tækifæri til að taka málstaðalinn til endurskoðunar og hætta að amast við eðlilegri þróun málsins sem ekki verður stöðvuð hvort eð er.

Þá gæfist okkur betri tími til að fást við það sem raunverulega skiptir máli: Að sjá til þess að íslenska sé notuð alls staðar þar sem þess er kostur, og unga fólkið fái jákvætt viðhorf til málsins og börnin hafi nægilega íslensku í málumhverfi sínu til að byggja sér upp traust málkerfi. Ef við fáum unga fólkið ekki til liðs við íslenskuna skiptir engu máli þótt okkur tækist að kenna öllum að segja mig langar og ég vil eins og páfagaukar.