Jamölu eða Jömulu?

Í gær rakst ég á blaðafrétt sem hófst svo: „Íslensku Eurovisionfararnir Systur hittu í dag úkraínsku söngkonuna Jömulu, sem sigraði Eurovison árið 2016. Þær Elín, Beta og Sigga tóku á móti Jamölu eftir æfingu hennar í dag með blómvendi og spjölluðu svo við söngkonuna og stund.“

Konan sem um ræðir heitir Susana Alimivna Jamaladinova en notar listamannsnafnið Jamala. Það birtist í tveimur myndum í fréttinni – Jömulu og Jamölu. Fyrra dæmið er í þolfalli en það seinna í þágufalli en það skiptir varla máli því að seinna í fréttinni kemur myndin Jamölu líka fyrir í þolfalli. Það sem þarna skiptir máli er að um aukafall er að ræða með endingunni -u.

Í íslensku er það alveg föst regla að einkvæð orð með a í stofni fá ö þess í stað ef þau fá beygingarendingu sem hefst á u: kakaköku, kallaköllum, o.s.frv. Þessi regla er mjög föst í okkur og við beitum henni iðulega á erlend orð þegar þau eru notuð í íslensku samhengi, ekki síst erlend kvenmannsnöfn svo sem Sarah, Tarja o.fl. En málið verður eilítið flóknara þegar tvö a eru í stofninum, í orðum eins og brandari, valtari, banani, sandali, Japani o.fl.

Þá kemur tvennt til greina: Að seinna a-ið breytist í ö en hitt haldist óbreytt, eða fyrra a-ið breytist í ö og það seinna í u. Orðin brandari og valtari fylgja yfirleitt seinna mynstrinu – þágufall fleirtölu er venjulega bröndurum og völturum en sjaldan brandörum og valtörum. Orðin banani og sandali gera ýmist – bæði bönunum og banönum er algengt, sem og söndulum og sandölum. Orð eins og Japani fylgja yfirleitt fyrra mynstrinu – þágufall fleirtölu er venjulega Japönum en sjaldan Jöpunum.

Bæði mynstrin koma sem sé fyrir og hvorugt eðlilegra eða réttara en hitt, en um að gera að fylgja málhefð – nota frekar bröndurum en brandörum og frekar Japönum en Jöpunum af því að ríkari hefð er fyrir fyrrnefndu myndinni. En þegar um er að ræða nöfn sem engin hefð er fyrir í íslensku, eins og Jamala og einnig fornafn varaforseta Bandaríkjanna sem heitir Kamala, hafa málnotendur frjálst val um það hvort mynstrið þeir nota – það er smekksatriði. Jamölu og Jömulu er því jafngilt, sem og Kamölu og Kömulu.

Það er skemmtilegt í þessari frétt að þarna eru báðar myndirnar, Jamölu og Jömulu, notaðar til skiptis. Það er ekkert einsdæmi þegar um val milli beygingarmynda er að ræða að sami málnotandi noti mismunandi myndir til skiptis, alveg ósjálfrátt og án þess að gera sér grein fyrir því. Ég hef sjálfur heyrt mann nota myndirnar sandölum og söndulum með stuttu millibili, án þess að nokkuð virtist ráða því annað en tilviljun.