Það er ýmislegt hægt
Sum ykkar muna kannski eftir sjónvarpsauglýsingunni þar sem Jón Gnarr í hlutverki prentsmiðjustarfsmanns ræddi í símann við viðskiptavin sem lét sér ekki nægja svarið „Nei, það er ekki hægt“ við einhverri spurningu og spurði hvers vegna það væri ekki hægt. Þá var Jóni nóg boðið og svaraði með þjósti: „Vegna þess að það er ekki hægt.“
Fyrir nokkru skrifaði ég hér færslu um það að með hjartastuðtæki sem hefur verið sett upp í Árnagarði, og öðrum byggingum Háskólans, væru eingöngu leiðbeiningar á ensku. Þessi færsla vakti nokkra athygli og rataði m.a. í blöðin, og í framhaldi af henni fékk ég póst frá umsjónaraðilum innan Háskólans þar sem það var útskýrt fyrir mér að það væri ekki einfalt mál að hafa þessar leiðbeiningar á íslensku.
Ég sat þó við minn keip og hélt því fram að þetta væri sáraeinfalt. Og viti menn - í dag kom ég í Árnagarð og sá að leiðbeiningarnar voru komnar á íslensku, þannig að þetta reyndist ekki vera óleysanlegt vandamál. En lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er: Þegar við spyrjum hvers vegna eitthvað geti ekki verið á íslensku eigum við ekki að láta okkur nægja svarið „Vegna þess að það er ekki hægt“. Það er nefnilega ýmislegt hægt.