Vörum okkur á skattsporinu!

Tungumálið er valdatæki – eitt öflugasta valdatæki sem fólk í lýðræðisþjóðfélagi getur beitt. Eins og öðrum valdatækjum er hægt að beita því á mismunandi hátt, af mismikilli fimi, og ná misgóðum árangri. Fólk sem hefur atvinnu af beitingu tungumálsins er þarna í mun sterkari stöðu en almenningur. Á seinni árum hafa ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki ráðið til sín upplýsingafulltrúa sem hafa það hlutverk að beita tungumálinu til að koma sjónarmiðum þessara aðila á framfæri. Það er ekkert athugavert við það, og þetta fólk er bara að vinna vinnuna sína og gera það sem það er gott í. En einmitt vegna þess að það beitir tækinu af færni og kunnáttu þurfum við að vera á varðbergi – gæta þess að ekki sé verið að misbeita sameign okkar, tungumálinu, til að slá ryki í augun á okkur á einhvern hátt.

Undanfarið hef ég nokkrum sinnum rekist á orðið skattspor í fjölmiðlum – einnig í myndinni skattaspor. Ég vissi ekki hvað þetta merkti og það er ekki í neinum orðabókum. Þegar ég fór að gúgla komst ég að því að orðið er ekki gamalt – það var kynnt til sögunnar í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2015. Þar kemur fram að skattspor fyrirtækis tekur til allra opinberra gjalda sem fyrirtækið greiðir, hverju nafni sem þau nefnast, svo sem tekjuskatts, virðisaukaskatts, tryggingagjalds o.fl., og einnig til greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna. En ekki nóg með það – skattsporið tekur líka til þeirra skatta sem fyrirtækið dregur af launum starfsfólks og skilar í ríkissjóð, svo og til lífeyrisframlags starfsfólksins. Fyrirtækið er því að talsverðu leyti innheimtuaðili, ekki greiðandi.

Það má halda því fram að það sé sérkennilegt að hafa sérstakt orð sem nær yfir og sameinar jafnóskylda hluti sem hvers kyns skattgreiðslur fyrirtækis, skatta starfsmanna þess, greiðslur í lífeyrissjóð o.fl. – og tengja þetta allt við fyrirtækið, þetta er skattspor þess. En það þjónar alveg sérstökum tilgangi að hafa sérstakt orð yfir þetta. Það hefur oft verið nefnt að ástæðan fyrir því hversu illræmd hin svokallaða „þágufallssýki“ er, og hversu hart hefur verið barist gegn henni, sé ekki síst sú að hún hefur nafn. Fjöldi annarra sambærilegra eða róttækari breytinga er í gangi í tungumálinu án þess að vekja jafnmikla athygli eða andúð, vegna þess að þær hafa ekkert sérstakt nafn sem geri auðvelt að tala um þær. Það hefur mikið áróðursgildi að búa til orðið skattspor og fella allt mögulegt undir það.

Það er nefnilega alveg ljóst í hvaða tilgangi þetta orð var smíðað. Í kynningunni í Morgunblaðinu kom fram að fyrirmyndin að skattsporinu væri sótt til Danmerkur. „Þar sætti Carlsberg, alþjóðlegi drykkjarvöruframleiðandinn, mikilli gagnrýni þar sem svo virtist sem félagið greiddi litla skatta til samfélagsins. Í kjölfarið hafi KPMG dregið upp skattspor fyrirtækisins. „Þar kom í ljós að þeir borguðu skatt upp á 2,3 milljarða danskra króna, fyrirtæki sem veltir rúmlega 100 milljörðum. En þegar búið var að taka saman alla þá skatta sem tengdust starfseminni kom í ljós að heildarskattgreiðslur félagsins voru um 40 milljarðar danskra króna en ekki aðeins tekjuskatturinn sem þeir skiluðu til samfélagsins. Þessi nálgun dró í kjölfarið úr gagnrýni á fyrirtækið.““

Þarna kemur þetta fram svo skýrt sem verða má. Orðinu er beinlínis ætlað að gera hugarfar almennings í garð fyrirtækja jákvæðara. Þegar dæmi um notkun orðsins eru skoðuð kemur líka greinilega í ljós að það er ekki síst notað af forsvarsfólki stórfyrirtækja sem hafa verið gagnrýnd fyrir lágt framlag til samfélagsins en háar arðgreiðslur til eigenda. Þetta var t.d. áberandi í umræðu um styrki stjórnvalda til fyrirtækja vegna áhrifa covid-19 eins og kom fram í fréttatilkynningu Bláa lónsins fyrr í vikunni: „Í tilkynningunni segir jafnframt að skattspor Bláa Lónsins hf. hafi numið rúmlega 1,8 milljörðum króna á árinu sem sé rúmlega níföld sú fjárhæð sem félagið þáði í gegnum úrræði stjórnvalda.“ Einnig mætti vísa í umræðu um skattspor Icelandair og ýmissa sjávarútvegsfyrirtækja.

Skattspor er stutt og lipurt orð sem fer vel í málinu og engin ástæða er til að amast við í sjálfu sér. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga hvers vegna það er búið til og hvernig það er notað. Tilgangur þess er að bæta ímynd stórfyrirtækja í augum almennings. Það er ekkert óeðlilegt að fyrirtækin vilji gera það. En það er gríðarlega mikilvægt að við, almenningur, áttum okkur á því að þarna er verið að beita tungumálinu sem valdatæki á markvissan og úthugsaðan (svo að ekki sé sagt útsmoginn) hátt. Þetta sýnir vel mikilvægi þess að leggja áherslu á orðræðugreiningu í skólum – kenna fólki að leggja gagnrýnið mat á það sem áhrifamiklir aðilar bera á borð fyrir okkur.