Máltilfinning okkar og hinna

Í umræðum á Facebook um nýútkomna bók mína, Alls konar íslenska, hef ég séð að sumum blöskrar að ég skuli halda því fram að ekkert sé athugavert við ýmis tilbrigði sem yfirleitt hafa verið kölluð „málvillur“. Að vísu sýnist mér að mörg þeirra sem tjá sig um þetta hafi ekki lesið bókina heldur byggi skoðun sína á fréttum af henni, ekki síst innslagi í „Ísland í dag“ á Stöð 2 fyrir nokkrum dögum. Það er alveg rétt að ég segi í bókinni að ástæðulaust sé til að amast við ýmsum tilbrigðum í máli. En ég slæ því ekki fram skýringalaust, heldur leitast við að útskýra sögu og ástæður tilbrigðanna til að lesendur geti sjálfir lagt mat á þau og tekið afstöðu til þeirra.

Sum þeirra sem tjá sig um þetta segja að tilbrigði eins og mér langar, ég vill, það var barið mig o.s.frv. særi málkennd sína og stingi sig í eyrun. Ég efast ekkert um að það sé rétt og þetta er ekkert óeðlilegt – við kippumst við þegar brotið er gegn því máli sem við ólumst upp við, sérstaklega ef hamrað hefur verið á því í skólum og annars staðar að önnur tilbrigði séu röng. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að málkennd, eða máltilfinning, er ekki eitthvað sem er sameiginlegt öllu málsamfélaginu. Hún er einstaklingsbundin. Við byggjum upp málkennd okkar, hvert og eitt, út frá málinu sem við heyrum í kringum okkur á máltökuskeiði, þótt það þýði ekki endilega að mál okkar verði nákvæmlega eins og málið í umhverfinu.

Þetta þýðir að fólkið sem notar umrædd tilbrigði er bara að tala í samræmi við sína málkennd – þá málkennd sem það hefur byggt upp á máltökuskeiði. Með því að fordæma þessi tilbrigði og telja þau röng erum við því að segja að okkar innbyggða málkennd – máltilfinning okkar – sé betri og réttari og æðri en máltilfinning þeirra sem nota þessi tilbrigði. Erum við virkilega í stöðu til þess? Er það ekki dálítið að setja sig á háan hest? Eru tilfinningar, hvort sem það er máltilfinning eða aðrar tilfinningar, ekki þess eðlis að annað fólk á ekkert með að telja þær rangar? Eigum við ekki að sýna tilfinningum annarra virðingu – líka máltilfinningu þeirra?

Máltilfinningin sem við byggjum okkur upp á máltökuskeiði er hluti af okkur sjálfum, sjálfsmynd okkar. Að mismuna fólki eftir máltilfinningu er sambærilegt við að mismuna því eftir húðlit, kynhneigð, kynvitund, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum o.s.frv., sem flestum finnst ótækt. Það táknar ekki að við þurfum að fella okkur við mál sem fellur ekki að máltilfinningu okkar – frekar en við þurfum að fella okkur við stjórnmálaskoðanir annarra, trúarbrögð þeirra o.s.frv. En við þurfum að átta okkur á því að annað fólk á jafnmikinn rétt á því að tala í samræmi við sína máltilfinningu og við í samræmi við okkar.