Ómálefnaleg mismunun eftir íslenskukunnáttu
Á seinustu árum hafa iðulega birst fréttir um að erlent starfsfólk í ýmsum þjónustustörfum verði fyrir aðkasti vegna skorts á íslenskukunnáttu. Það er vitanlega óviðunandi – þótt íslenskukunnátta sé mikilvæg má barátta fyrir íslenskunni aldrei snúast upp í þjóðrembu og íslenskuna má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því. Vissulega getur í sumum tilvikum verið málefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu „til að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum“ eins og segir í nýlegum úrskurði Kærunefndar jafnréttismála.
Um helgina voru auglýst 15 störf á skrifstofu Eflingar. Til framkvæmdastjóra og verkefnastjóra upplýsingatæknimála er ekki gerð nein krafa um tungumálakunnáttu en í öllum öðrum störfum er gerð krafa um íslensku- og enskukunnáttu, ýmist mjög góða (2), góða (9) eða án nánari skilgreiningar (2). Þetta er athyglisvert, í ljósi þess að rúmur helmingur félaga í Eflingu er af erlendum uppruna og nærri ⅔ þeirra sem leituðu til Kjaramálasviðs félagsins á síðasta fjórðungi ársins 2020 voru af erlendum uppruna. En engin krafa er gerð um t.d. pólskukunnáttu þrátt fyrir hátt hlutfall Pólverja meðal Eflingarfélaga.
Í nýrri bók minni „Alls konar íslenska“ eru 25 heilræði um íslenska málrækt. Meðal þeirra er: „Íslensk málrækt felst í því að láta skort á íslenskukunnáttu aldrei bitna á fólki eða nota hann til að mismuna því á ómálefnalegan hátt.“ Nú legg ég áherslu á að mér finnst mikilvægt að fólk sem býr hér og starfar læri íslensku sem best. Það er mikilvægt bæði fyrir fólkið sjálft og fyrir stöðu íslenskunnar. En það tekur tíma að læra íslensku, hvað þá að ná fullu valdi á henni, og mikilvægt að gefa fólki góðan tíma til þess en nota ekki ófullkomna íslenskukunnáttu til að halda því niðri.
Í ljósi þess sem áður segir mætti ætla að á skrifstofu Eflingar væri full þörf fyrir starfsfólk sem hefur vald á ýmsum tungumálum öðrum en íslensku og ensku og fram hefur komið í fréttum að á skrifstofunni hefur unnið fólk sem ekki hefur gott vald á íslensku en talar hins vegar ýmis önnur tungumál sem nýtast í starfinu. Með auglýsingu af þessu tagi er verið að útiloka það fólk, þrátt fyrir að starfsfólk sem sagt var upp hafi verið hvatt til þess að sækja um að nýju. Ég fæ ekki betur séð en þarna sé verið að misnota íslenskuna. Það er ekki gott.