Merkir einhver sama og someone?

Nýlega sá ég í þýddri grein á vefmiðli setninguna „Mamma, pabbi, ég er í sambandi með einhverjum“. Mér fannst þetta dálítið sérkennilegt og óíslenskulegt en grunaði hvað lægi að baki og sá grunur staðfestist þegar ég skoðaði enska frumtextann – þar stóð „I’ve been seeing someone.“ Vissulega samsvarar enska orðið someone mjög oft íslenska orðinu einhver sem merkir 'ótilgreind persóna' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók, og þessi orð eru þýdd hvort með öðru í orðabókum milli íslensku og ensku. En skýringin 'ótilgreind persóna' er samt ófullnægjandi. Einhver er nefnilega ekki bara ótilgreindur gagnvart viðmælanda, heldur líka óskilgreindur gagnvart mælanda, í þeim skilningi að mælandi veit ekki deili á honum.

Ef dyrabjöllunni er hringt og ég fer til dyra, og úti stendur maður sem ég þekki ekki, get ég sagt við konuna mína það er einhver að spyrja eftir þér. Ég sé vissulega manninn og gæti lýst honum en hann er samt óskilgreindur gagnvart mér. Konan mín gæti hins vegar vitað deili á honum en fær ekki upplýsingar um það hver hann sé – af því að ég get ekki gefið henni þær – þannig að hann er ótilgreindur gagnvart henni. Ef ég þekki manninn hins vegar get ég ekki sagt það er einhver að spyrja eftir þér. Eðlilegast er að nefna nafnið en ef ég vil af einhverjum ástæðum ekki gera það get ég sagt það er maður að spyrja eftir þér, það er verið að spyrja eftir þér eða eitthvað slíkt. En ég get ekki notað einhver.

En þetta er öðruvísi í ensku. Þar nægir að sá sem um er rætt sé ótilgreindur gagnvart viðmælanda – hann þarf ekki að vera óskilgreindur gagnvart mælanda, þótt hann geti verið það. Mælandi getur sem sé vitað um hvern er að ræða. Konan sem nefnd var hér í upphafi vissi vitanlega – skyldi maður ætla – hvern hún hafði verið að hitta þótt foreldrarnir vissu það ekki. Í ensku er hægt að nota someone við slíkar aðstæður – en ekki í íslensku. Í enskri orðabók segir um someone: 'used to refer to a single person when you do not know who they are or when it is not important who they are'. Það er seinni hlutinn sem hér skiptir máli og sýnir að mælandinn getur vitað deili á þeim sem um er að ræða þótt hann nefni það ekki.

Þetta dæmi sýnir vel hvernig fíngerður merkingarmunur, sem ekki kemur endilega fram í orðabókum, getur verið milli orða í tveimur tungumálum sem í fljótu bragði virðast merkja það sama. Sá merkingarmunur sem hér hefur verið lýst milli einhver og someone skiptir sjaldnast máli og þess vegna hætt við að hann fari fram hjá okkur. Þetta sýnir líka hvað það er mikilvægt að þýða texta ekki í hugsunarleysi og einblína á einstök orð – það verður að skoða textann í heild og greina merkingu hans. En jafnframt sýnir þetta hversu snúin vélræn þýðing getur verið (án þess að ég sé að segja að um hana sé að ræða í þessu tilviki) – sú merkingargreining sem þarna er nauðsynleg er hreint ekki einföld fyrir tölvur.