Að skipta um skoðun

Ég var í Kiljunni í kvöld sem var gaman, en það var eitt sem ég fór að hugsa um eftir á. Egill byrjaði á að segja að það væri eiginlega merkilegt að lesa að ég hefði einhvern tíma verið málhreinsunarmaður, svona miðað við afstöðu mína nú. Svipað kom upp á þegar ég var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 á föstudaginn var, þar sem verið var að ræða málþing um kynhlutlaust mál. Þar nefndi ég – reyndar ekki í viðtalinu sjálfu, heldur í samtali við þáttastjórnendur eftir á – að ég hefði algerlega skipt um skoðun í þeim efnum, og það þótti stjórnendunum merkilegt.

Það sem mér fannst hins vegar merkilegt var að það skyldi þykja merkilegt að ég hefði skipt um skoðun. Hvað er svona merkilegt við það? Mér finnst það fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og geri það iðulega, ef ég sannfærist um að fyrri skoðun mín sé röng eða hafi byggst á misskilningi eða léttvægum rökum. En það er oft eins og það þyki ekki gott að skipta um skoðun – það sé túlkað sem vingulsháttur og reiðarek. Þetta rímar auðvitað við það að það þykir ekki eðlilegt á Íslandi að viðurkenna mistök eða að maður hafi ekki sagt satt. Það er veikleikamerki.

Einn megintilgangur minn með bókinni er einmitt sá að reyna að efla gagnrýna hugsun um íslenskuna. Við erum vön að láta segja okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt án þess að fyrir því séu færð mikil rök – þetta bara er svona. Það er ekki til þess fallið að ýta undir áhuga á tungumálinu, heldur elur á misskilningi um málið og eðli þess. Við viljum ekki að nemendur læri námsefnið eins og páfagaukar, heldur skoði það með gagnrýnum huga og leitist við að skilja það. Nema þegar kemur að íslenskunni – þá er ýmislegt sem er „af því bara“. Þannig á það ekki að vera.

Málnotendur eiga rétt á að fá skýringu á því sem verið er að boða, og taka sjálfstæða afstöðu til þess. Kannski verða skýringarnar til þess að einhverjir þeirra skipti um skoðun, en það er ekki meginatriðið, heldur það hvort tekst að fá fólk til að hugsa um málið.