Skítamix og skítaredding

Um daginn var ég spurður hvort ég kynni ráð til að leysa ákveðið atriði í umbroti skjals í Word. Ég sagðist halda að kerfið byði ekki upp á neina leið til að leysa málið, en það væri hins vegar alltaf til einhver skítaredding. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um þetta orð sem ég þekki vel og nota stundum. Það merkir eitthvað í átt við 'lausn sem ekki lýtur viðurkenndum reglum eða vinnubrögðum en gripið er til, oft til bráðabirgða, vegna þess að ekki er völ á öðru við tilteknar aðstæður'. Skylt þessu er orðið skítamix sem kemur fyrir í frásögn Fréttablaðsins 2010 af tilurð drykkjarins Mix:

„Það ku hafa verið bakarinn Björgvin Júníusson sem bjó þennan drykk til fyrstur manna með aðstoð vinnufélaga sinna. Fyrir ein jólin átti að vanda að leggja í appelsínugosdrykkinn Valash, en sá drykkur var að uppistöðu appelsínuþykkni en lítill hluti var úr ananasþykkni. Fyrir mistök barst efnagerðinni hráefni í drykkinn í öfugum hlutföllum, mest af ananasþykkni en lítið af appelsínuþykkni. Björgvin náði að blanda drykkjarhæfan mjöð úr þykkninu og kallaði til vinnufélaga sína til að smakka „skítamixið“ eins og hann kallaði útkomuna. Mönnum féll drykkurinn ágætlega en töldu ófært að kalla hann Skítamix svo niðurstaðan var einfaldlega Mix.“

Á ensku er talað um shit mix sem er eins konar ógeðsdrykkur búinn til með því að blanda saman ýmsum víntegundum. Ekki er ótrúlegt að upphafsmaður drykkjarins Mix hafi haft þetta í huga, en í íslensku hefur merking orðsins orðið miklu víðari. Það getur merkt svipað og skítaredding, en þó er skítamix líklega frekar notað um einhverjar áþreifanlegar lausnir (smíði, viðgerð, blöndun efna o.þ.h.). En skítamix er líka notað um t.d. eitthvert vafasamt athæfi sem er á mörkum hins löglega – eitthvað sem skítalykt er af. Af þessu hefur líka verið mynduð sögnin skítamixa.

Bæði skítamix og skítaredding eru óformleg orð eins og ýmis önnur með þennan fyrripart – koma sjaldan fyrir á prenti og finnast ekki í neinum orðabókum (skítamix er þó í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls). Alls eru 58 dæmi um skítamix og skítamixa á tímarit.is, það elsta frá 1995, og 87 dæmi í Risamálheildinni, það elsta frá 2010. Um skítaredding eru 25 dæmi um það á tímarit.is, það elsta frá 2005, og 69 í Risamálheildinni, það elsta frá 2004. Þetta eru því ekki gömul orð í málinu, a.m.k. ekki í ritmáli, en í ljósi þess hversu óformlegt þau eru kemur nokkuð á óvart að fleiri dæmi eru um þau úr umræðum á Alþingi en úr nokkurri annarri heimild.