Tungumál og vald

Af ýmsum ástæðum hef ég undanfarið verið dálítið upptekinn af því að velta fyrir mér tungumálinu sem valdatæki. Á þetta er sjaldan minnst í íslenskri málfarsumræðu en ef umræða undanfarinna áratuga er skoðuð er samt augljóst hvernig tungumálið hefur verið notað til að halda fólki niðri og gera lítið úr því – fólki sem átti undir högg að sækja í þjóðfélaginu. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þetta hafi alltaf verið meðvitað. Þvert á móti – ég held að á bak við umvandanir og leiðréttingar liggi oftast einlægur áhugi á því að vernda og varðveita íslenskuna. En þetta hefur samt alltaf þau áhrif að spilla möguleikum þeirra sem standa höllum fæti til að nota tungumálið til að berjast fyrir bættri stöðu sinni.

Fyrir nokkrum árum kynnti ég mér svolítið það sem heitir forensic linguistics á ensku og hefur verið þýtt sem réttarmálvísindi – fræðin um notkun tungumálsins í sakamálum og fyrir dómstólum. Það er mjög áhugavert svið sem ekki hefur verið áberandi hér á landi en ætti sannarlega skilið meiri athygli. Í einni bók sem ég las um þetta efni var meðal annars fjallað um aðstöðumun almennra málnotenda og þjálfaðra lögmanna fyrir dómi. Lögmennirnir eru þjálfaðir í að beita tungumálinu á ákveðinn hátt og það gefur þeim málfarslega yfirburðastöðu í samskiptum við fólk sem hefur ekki þessa þjálfun. Auðvitað er í raun óhjákvæmilegt að fólk sem hefur menntun og reynslu á ákveðnu sviði standi betur að vígi á því sviði en allur almenningur.

En þetta rifjaði upp fyrir mér að einu sinni las ég uppskrift af yfirheyrslum þar sem lögmaður var að yfirheyra vitni í dómsmáli. Vitnið var af alþýðustétt, hafði ekki mikla formlega menntun eða æfingu í að lesa og skrifa formlegt mál. Lögmaðurinn var mjög fær og hafði áratuga reynslu á sínu sviði. Það var augljóst hvernig hann vafði vitninu um fingur sér og gat nánast fengið það fram sem hann vildi með mælskubrögðum og flókinni málbeitingu. Ég gat ekki betur séð en vitnið hefði staðfest eitt og annað sem það ætlaði sér örugglega ekki að staðfesta, einfaldlega vegna þess að lögmaðurinn hagaði orðum sínum á ákveðinn veg þannig að vitnið áttaði sig ekki á því hvað hann var að fara og gekk þannig í gildru. Málfarsgildru.

Það má auðvitað segja að lögmaðurinn hafi bara verið að vinna vinnuna sína, í þágu þess sem hann var fulltrúi fyrir – gera það sem hann var góður í. En það ætti samt að gera þá siðferðiskröfu til fólks sem hefur gott vald á málinu að það misnoti þetta vald ekki gagnvart þeim sem minna mega sín.