Alla leið – yfir í ensku

Undanfarin laugardagskvöld hef ég horft á þættina „Alla leið“ í Ríkssjónvarpinu. Þetta hafa yfirleitt verið fjörugir og skemmtilegir þættir, en á þeim er einn stór galli: Það er slett óheyrilega mikilli ensku í þeim. Þar eiga bæði stjórnandi og gestir hlut að máli. Vitanlega væri fráleitt að gera kröfu um formlegt mál í léttum skemmtiþætti eins og þessum og ég geri ekki athugasemdir við ensk orð sem hafa verið notuð lengi og eru meira og minna komin inn í málið – orð eins og fíla og fílingur, agressífur, læf o.s.frv.

En öðru máli gegnir þegar heilu frasarnir eru teknir beint úr ensku án þess að nokkur nauðsyn sé á því. Í þættinum í gær var einu lagi t.d. lýst með því að það væri middle of the road, annað var painted by numbers, og það þriðja potential winner – og ýmis hliðstæð dæmi mætti nefna úr fyrri þáttum. Það er ekki nokkur vandi að orða allar þessar lýsingar á íslensku. Ég heyrði meira að segja ekki betur en orðið singer væri notað nokkrum sinnum í stað söngvari – vona að mér hafi misheyrst. Ég tek hér upp bút úr bók minni Alls konar íslenska – texta sem reyndar var upphaflega skrifaður í tilefni af söngvakeppni Sjónvarpsins fyrir nokkrum árum.

„Í þáttum um sérhæfð efni sem hafa afmarkaðan markhóp er kannski ekkert óeðlilegt að sletta stundum og nota erlend orð sem búast má við að áheyrendur þekki, enda er þá oft um að ræða orð sem ekki eiga sér íslenskar samsvaranir. En öðru máli gegnir um dagskrárliði þar sem vitað er að áhorfendur eru mjög margir, á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum – ekki síst ýmsa afþreyingar- og skemmtiþætti. Þar er í raun engin afsökun fyrir að nota slettur sem þar að auki eru iðulega alveg óþarfar. Vegna stöðu sinnar og hlutverks ber Ríkisútvarpið vitaskuld alveg sérstaka ábyrgð í þessu sambandi.

Notkun á slettum við slíkar aðstæður er óvirðing við íslenskuna – en líka við hlustendur. Það skilja nefnilega ekki allir Íslendingar ensku þótt svo sé oft látið í veðri vaka. Með því að sletta ensku ótæpilega í þáttum sem eru ætlaðir allri þjóðinni er stuðlað að málfarslegri stéttaskiptingu. Skiptingu í fólk sem er „hipp og kúl“ svo að notuð sé enskusletta, unga fólkið sem skilur enskusletturnar og hlær á réttum stöðum og svo öll hin – eldra fólk og aðra hópa sem af ýmsum ástæðum hafa ekki tileinkað sér tískuslettur samtímans. Við eigum á hættu að þetta fólk fyllist minnimáttarkennd eða skömm yfir því að skilja ekki flotta fólkið.“

Mér finnst þetta sem sagt ekki boðlegt. Við eigum kröfu á því að það sé töluð íslenska í sjónvarpi okkar allra.