Íslensk málnefnd

Íslensk málnefnd var stofnuð árið 1964. Hlutverk hennar er samkvæmt lögum „að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu“. Nefndina skipuðu upphaflega þrír og síðar fimm menn, allt háskólakennarar í íslensku eða akademískir starfsmenn rannsóknastofnana. Árið 1989 var nefndin stækkuð að mun í þeim tilgangi að fá inn fleiri sjónarmið, og í hana bætt fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila. Vegna stærðar nefndarinnar þótti þá nauðsynlegt að hún kysi sér sérstaka fimm manna stjórn. Þetta skipulag stendur enn, þótt smávægilegar breytingar hafi verið gerðar á fjölda nefndarmanna og tilnefningaraðilum.

Í fullskipaðri málnefnd sitja nú 16 manns. Tíu þeirra eru fulltrúar félaga og stofnana sem vinna með íslenskt mál á einn eða annan hátt. Þetta eru Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rit­höf­unda­samband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Íðorðafélagið (fyrir hönd orðanefnda), Banda­lag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing (félag bókasafns- og upplýsingafræðinga) og Hagþenkir. Að auki er fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfé­laga og fulltrúi skipaður úr hópi innflytjenda, tveir fulltrúar samstarfsnefndar háskólastigsins, og svo formaður og varaformaður skipaðir af ráðherra. 14 af 16 nefndarmönnum nú eru með einhverja háskólamenntun í íslensku.

Þetta skipulag endurspeglar úrelt viðhorf til tungumálsins og hverjum það komi við. Það má segja að næstum allir nefndarmenn séu fulltrúar „framleiðenda“ (eða „eigenda“) tungumálsins, fólks sem hefur atvinnu af því að vinna með íslenskt mál, en fulltrúa „neytenda“ málsins, almennra málnotenda, vanti nær algerlega í nefndina. Því verður að breyta. Það mætti hugsa sér að í henni væru t.d. fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks, Ör­yrkja­bandalagsins, Samtakanna ´78, Kvenréttindafélagsins, Íþróttasambands Íslands, Heimilis og skóla, Lands­sam­taka íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Samtaka Pól­verja á Ís­landi. Þar með væru komnir jafnmargir fulltrúar „neytenda“ og „framleiðenda“ í nefndina.

Nefndin væri þá orðin 25 manna. Slík nefnd er vitaskuld of stór til að hægt sé að gera ráð fyrir að hún fundi oft eða fundir hennar verði skil­virkir. Hins vegar byði þessi skipan upp á að nefndinni yrði skipt í undirnefndir þar sem fjöl­breytt sjónarmið fengju að njóta sín í hverri nefnd. Þetta gætu t.d. verið fimm nefndir sem hver væri skipuð fimm manns og fjölluðu um mismunandi viðfangsefni. Ein nefndin gæti fjallað um stöðu íslenskunnar og íslenskan málstaðal, önnur um skólamál og málefni ungs fólks, sú þriðja um málefni fjölmiðla og atvinnulífs, sú fjórða um mál og mannréttindi með sérstöku tilliti til viðkvæmra hópa eins og samkynhneigðra og fatlaðs fólks, og sú fimmta um íslensku sem annað mál og málefni innflytjenda.

Formenn nefndanna fimm gætu síðan myndað stjórn Íslenskrar málnefndar. Til greina kæmi að endurraða í undirnefndirnar á hverju ári eða annað hvert ár og mikil­vægt væri að raða í nefndirnar eftir þekkingu eða áhuga á viðfangsefni þeirra, en jafn­framt þyrfti að gæta þess að mismunandi sjónarmið fengju að njóta sín í öllum nefndum. Ég er sannfærður um að þessi nefndarskipun gæti höfðað betur til almennra málnotenda en sú sem nú er, að núverandi nefndarfólki ólöstuðu. Málnefndin á sextugsafmæli eftir tvö ár, 2024 – það væri góð afmælisgjöf til hennar og íslenskra málnotenda að ný lög um nefndina tækju gildi á afmælisárinu.