Kynþáttamörkun

Hugtakið racial profiling er nýkomið inn í umræðuna hér á landi. Með því er átt við það þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mis­munun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar og/eða húðlitar frekar en sönnunargagna. Ýmsar þýðingar hafa komið fram á racial profiling, t.d. kynþáttamiðuð löggæsla, kynþátta­miðuð greining, kyn­þátta­blóri og sjálfsagt fleiri. Við teljum ekkert þessara orða heppilegt en mikilvægt að hafa gott íslenskt orð um þetta hugtak.

Enska orðið profiling merkir „the recording and analysis of a person's psychological and be­havi­oural characteristics, so as to assess or predict their capabilities in a certain sphere or to assist in identifying categories of people“ þ.e. „skráning og greining á sálrænum eiginleikum og hegðunarmynstri einstaklinga, í þeim tilgangi að meta eða spá fyrir um færni þeirra á til­teknu sviði eða hjálpa til við flokkun fólks“. Orðið er notað í ýmsum samböndum – ekki bara racial profiling heldur líka criminal profiling, gender profiling, age profiling o.fl. Þess vegna væri æskilegt að eiga íslenska samsvörun sem hægt væri að nota, með mismunandi forliðum, í öllum þessum samböndum.

Við leggjum til að orðið mörkun verði tekið upp sem þýðing á profiling. Sögnin marka merkir m.a. ‘merkja, auðkenna’, og með því að marka fólk eru því gefin eða ætluð ákveðin auðkenni og skipað í ákveðinn flokk. Verknaðarnafnorðið mörkun er svo myndað af marka. Við teljum að það nái merkingunni í profiling vel – það er verið að marka (e. profile) tiltekna einstaklinga eða hópa, skilgreina eiginleika og hegðun þeirra, gefa þeim tiltekið mark (e. profile). Hugtakið racial profiling má því þýða sem kynþáttamörkun. Á sama hátt má þýða criminal profiling sem afbrotamörkun, gender profiling sem kynjamörkun, age profiling sem aldursmörkun o.s. frv. Til að átta sig á hvernig orðið væri notað má vitna í nýlegar fréttir.

Í frétt á mbl.is 17. maí segir: „„Þetta er engu að síður mikið áfall fyr­ir dreng­inn,“ sagði Sig­ríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða lög­gæslu að ræða.“ Í Fréttablaðinu sama dag segir: „Arn­dís Anna spurði um kyn­þátta­miðaða lög­gæslu [e. Ra­cial profiling] innan bæði lög­­reglunnar og sér­sveitar.“ Í Kjarnanum sama dag segir: „Segir ekki um kynþáttamiðaða lög­gæslu að ræða.“ Auðvelt væri að skipta hér kynþáttamiðaða löggæslu út fyrir kynþáttamörk­un: „„Þetta er engu að síður mikið áfall fyr­ir dreng­inn,“ sagði Sig­ríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamörkun að ræða.“ „Arn­dís Anna spurði um kynþáttamörkun [e. Ra­cial profil­ing] innan bæði lög­reglunnar og sér­sveitar.“ „Segir ekki um kynþáttamörkun að ræða.“

Þótt umræða um racial profiling sé ný hér á landi má búast við að hún skjóti oftar upp kollinum á næstunni og eigi eftir að verða meira áberandi. Þess vegna teljum við mikilvægt að lipurt og lýsandi íslenskt orð um þetta hugtak komi fram sem fyrst og festist í sessi. Við teljum að orðið kynþáttamörkun henti vel í þessu skyni og hvetjum þau sem fjalla um þetta efni á opinberum vettvangi til að nota það orð – með enska hugtakið innan sviga í fyrstu ef þörf þykir. Vitanlega kann þetta orð að hljóma framandlega í fyrstu eins og ný orð gera venjulega, en komist það í einhverja notkun mun það án efa venjast fljótt.