Óþol fyrir umburðarlyndi

Ég sé að Bakþankar Fréttablaðsins í dag fjalla að verulegu leyti um mig þótt ég sé ekki nefndur á nafn:

„Á dögunum þegar ég var á leið til vinnu var kynntur til sögunnar á RÚV íslenskufræðingur til að ræða um nýútkomna bók sína. Ég flýtti mér að skipta yfir á umfjöllun um heimaslátrun á annarri stöð í óþolinmæðiskasti.

Í starfi mínu hitti ég mikið af fólki sem er vart mælandi lengur á íslensku. Ensk orð og orðatiltæki eru því tamari en móðurmálið. Margir harma þetta en þessi íslenskufræðingur segir að um eðlilega þróun tungumálsins sé að ræða. Hin fræga þágufallssýki hljómar sem hunang í hans eyrum og ber vitni um aðlögunarhæfni málsins.

Það er til merkis um hækkandi aldur og geðvonsku að mér leiðist undanhald íslenskunnar. RÚV hefur algjörlega gefist upp gagnvart enskuslettum og beygingarvillum. Mér finnst það skrítið að íslenskufræðingur skuli reka flóttann og segja málvillur vera ásættanlega og eðlilega þróun.“

Það er athyglisvert að höfundur Bakþanka skipti yfir á aðra stöð um leið og farið var að tala um bók mína. Hann hafði sem sé engan áhuga á að hlusta á þau rök sem ég hafði fram að færa og gerir mér þess vegna upp skoðanir – og er svo sem ekki einn um það. Ég hef aldrei mælt því bót að nota ensk orð og orðatiltæki í íslensku – þvert á móti hef ég iðulega gert athugasemdir við enskunotkun, bæði á þessum vettvangi og annars staðar (m.a. í bókinni sem bakþankahöfundur vildi ekki heyra kynnta).

Vissulega má ýmislegt betur fara í umgengni fólks við tungumálið. Þannig hefur það alltaf verið. En sífellt tal um „undanhald“ íslenskunnar er ekki til annars fallið en skapa neikvætt viðhorf til málsins, sérstaklega meðal unglinga sem oftast eru skotmarkið í þessari umræðu. Haldið þið að það sé upplífgandi fyrir unglinga að sjá sífellt og heyra talað um að þau kunni ekki íslensku, mál þeirra sé uppfullt af enskuslettum og beygingarvillum, orðfærið fátæklegt o.s.frv.? Er þetta líklegt til að efla áhuga þeirra á málinu og fá þau til að þykja vænt um íslenskuna?

Bakþankahöfundur nefnir „hækkandi aldur og geðvonsku“ sem ástæðu fyrir óþoli sínu fyrir „undanhaldi“ íslenskunnar. En það er ekkert náttúrulögmál að óþol og skortur á umburðarlyndi fylgi hækkandi aldri. Við gamlingjarnir erum ekki eilíf og það er unga fólkið sem tekur við keflinu af okkur. Reynum að skilja það og málfar þess, hvetjum það til að nota málið sem mest – á þann hátt sem því er eðlilegt. Íslenska þess er kannski ekki eins og okkar íslenska, en hún er ekki heldur eins og íslenskan sem foreldrar okkar, afar og ömmur töluðu. Það er bara allt í lagi. Það er samt íslenska.