„Butter & salt bragð“

Nói Síríus auglýsir nú í ákafa nýja vöru, Bíó Kropp, sem sagt er „með geggjuðu butter & salt bragði“. Ég þykist vita að stjórnendum fyrirtækisins sé kunnugt um að butter heitir smjör á íslensku. Ef þeim finnst eitthvað óheppilegt eða ólystugt að tala um smjörbragð ætti kannski frekar að huga að því að breyta vörunni en láta íslenskuna víkja. Orðið salt er vissulega skrifað eins á íslensku og ensku en í sjónvarpsauglýsingum er það borið fram sem enskt orð, ekki íslenskt.

Mér er hulin ráðgáta hvers vegna þarna er notuð enska en ekki íslenska. Eina gilda ástæðan væri sú að þetta væri framleitt til útflutnings eða einkum ætlað að höfða til ferðafólks. Það er þó ótrúverð skýring í ljósi þess að íslenska orðið BÍÓ er hluti af heiti vörunnar. Allt bendir því til þess að enska sé þarna notuð vegna þess að stjórnendum fyrirtækisins þyki það smart og söluvænlegt og líklegt til að höfða betur til neytenda.

Það er fyrirtækinu ekki til sóma að nota ensku í heiti á framleiðsluvörum sínum fullkomlega að ástæðulausu. Það gefur til kynna að íslenska þyki ekki nothæf þegar þarf að vekja athygli, t.d. setja nýja vöru á markað. Þetta grefur meira undan íslenskunni en við áttum okkur á í fljótu bragði vegna þess að það hefur áhrif á viðhorf almennings til málsins. Eftir að athygli var vakin á þessari auglýsingu sendi fyrirtækið frá sér yfirlýsingu. Það er þakkarvert. En í yfirlýsingunni kemur meginatriði málsins einmitt fram:

„Þegar þessi hug­mynd að Nóa kroppi kom upp, þá var horft meira til þess að tengja vör­una við þá stemmn­ingu sem hún á að skapa, sem er bíó, popp og auðvitað bragðið á vör­unni.“

Einmitt. Það er verið að búa til huggulega stemmningu og þá er notuð enska. Mér dettur ekki í hug að á bak við það sé einhver andúð á íslenskunni. Þetta er bara lýsandi fyrir þau ómeðvituðu viðhorf gagnvart íslensku og ensku sem eru alltof rík í okkur. Þessu þarf að breyta. En þetta mál sýnir að það skiptir máli að gera athugasemdir þegar okkur finnst íslenskan fara halloka fyrir ensku.